Gleðilegan Villikisudag

Tögg

Fréttir

Í dag eru tæplega 290 kisur í okkar umsjá – sem er svakalega há tala 🥺 Sjaldan höfum við séð jafnmikið magn af kettlingum og í ár, sem er virkilega sorgleg þróun miðað við að við höfum markvisst unnið í að sporna við offjölgun villtra katta í rúm 11 ár, en það þarf ekki nema eina ógelda læðu til að lenda á vergangi til að nýtt villikisusvæði geti myndast.

Á sama tíma og við erum að taka á móti kettlingum – sem til allra lukku fá margir að fæðast á okkar frábæru fósturheimilum frekar en í kuldanum úti – þá erum við líka að sjá um gamlar villikisur sem margar þurfa tannaðgerðir eða aðra dýralæknaþjónustu, eða koma inn til að fá að ljúka lífinu í hlýju og öryggi.

Allt okkar starf er í höndum fjölda sjálfboðaliða sem leggja tíma sinn, vinnu og þekkingu í að annast allar þessar kisur, hvort sem það er að gefa þeim að borða, ná þeim inn í hlýjuna, skutla til læknis eða moka kattasandinn (og það þarf sko aldeilis að moka mikinn sand 💩). Og það er alls ekki sjálfsagt að við fáum svo mikið sem gott kisuknús að launum 😼

Við fögnum samt sem áður þessum degi, því við elskum allar okkar kisur og erum endalaust þakklát fyrir allt fólkið sem er tilbúið að fóstra fyrir okkur og styðja kisurnar okkar með alls konar varningi og styrkjum 💖

Ef þú vilt fagna þessum degi með okkur, eða einfaldlega hjálpa okkur að hjálpa öllum þessum fjölda, þá tökum við á móti frjálsum framlögum og mánaðarlegum styrkjum í gegnum https://www.styrkja.is/villikettir💗

is_IS