fbpx

Gleðilegt ár 2017

Árið 2016 var mjög annasamt og viðburðaríkt hjá félaginu VILLIKETTIR. Á milli 300-400 kettlingum og eldri kisum var fundið nýtt heimili í gegnum okkur. Stór hluti af þessum kisum eða 75, voru kisur sem við björguðum úr afleitum aðstæðum af heimili þar sem bjuggu 100 kettir og 6 hundar. Aðkoma okkar að þessu stóra 100 katta máli tók mikinn hluta af tíma, orku og fjármunum félagsins og enn erum við tengd þessu máli með nokkrar kisur á okkar vegum og 25 kisur sem eftir eru á heimilinu en við tókum að okkur að láta gelda svo fjölgunin stoppaði.
Þegar svona stór mál koma upp þá finnum við svo vel hvað okkur vantar húsnæði – afdrep til að taka við svona miklum fjölda katta þegar neyðaraðstæður koma upp. Það er stóri draumurinn okkar fyrir næstu ár að eignast okkar eigið húsnæði eða afdrep til að geta komið fleiri kisum til hjálpar.
Við þurftum að kæra nokkur mál til MAST á árinu 2016 sem vörðuðu illa meðferð á kisum, við lærðum á því að úrræði til hjálpar dýrum í þessum aðstæðum voru af mjög skornum skammti hjá MAST og í raun aðeins fá sjálfboðaliðasamtök sem geta brugðist við til bjargar kisum sem búa við slæmar aðstæður og þá eru þessi samtök alveg á eigin vegum hvað varðar fjármagn og húsnæði. Við vonum að á næstu árum verði einhverjar breytingar á dýravernd á Íslandi og betur verði hugað að velferð þeirra og einhver úrræði í boði önnur en aflífun dýranna. Eftirlit þarf líka að auka og viðurlög við illri meðferð á dýrum.
Við höfum haldið áfram að TNR’a villikisurnar (Fanga-Gelda-Skila) til að reyna að bæta lífsgæði þeirra og stemma stigum við fjölgun dýranna. Við gefum villikisum á fjölmörgum stöðum á landinu og erum stöðugt að fá til liðs við okkur nýtt fólk víðsvegar um landið sem vill taka þátt í starfi VILLIKATTA.
Á árinu leituðum við til stærstu sveitarfélaga landsins til að gera við okkur samstarfssamning um velferð og umsjón villikatta, við fengum jákvæð viðbrögð víða og Hafnarfjarðarbær ákvað fyrstur af þessum sveitarfélögum að gera við okkur tilraunasamning til 1 árs. Við munum halda áfram að vinna með sveitarfélögunum að málefnum villikatta til að bæta velferð þeirra og aðbúnað.
Við höfum fengið fjölmarga sjálfboðaliða í hópinn á þessu ári, mikið af frábæru fólki sem hefur lagt fram tíma sinn til að gera líf villikatta betra á Íslandi. Við erum innilega þakklát fyrir góðvild fólks í garð villikatta, án ykkar þá væri þetta ekki mögulegt
Og ekki má gleyma öllum dýralæknunum sem hafa lagt okkur lið, gefið vinnu sína og tíma til að bæta líf kattanna – þeir hafa verið okkur ómissandi á árinu og bjargað mörgum kisulífum. TakkDýralæknamiðstöðin Grafarholti, Dýralæknastofa Reykjavíkur, Dýraspítalinn Í Víðidal Ehf,Dýralæknastofa Suðurnesja og Dýraspítalinn Garðabæ.
Og svo eru það þið kæru dýravinir  þið hafið lagt okkur lið á svo marga vegu, með fjárstyrkjum, matargjöfum, teppum og öðru dóti sem hefur nýst kisunum, fallegum orðum og hvatningu til að halda áfram. Við erum ykkur endalaust þakklát, takk fyrir stuðninginn

Gleðilegt ár kæru vinir, við hjá VILLIKÖTTUM munum halda áfram á næsta ári að vinna að bættum hagsmunum villikatta á Íslandi. Við vonum að þið verðið með okkur á þeirri leið og takið þátt í að búa vegalausum kisum betra líf

gledilegt2017

Hefur þú upplýsingar um eitrunarmálið í Hellisegerði í Hafnarfirði ?

Uppfært:  Búið er að ná markmiðinu með verðlaunaféð, 102.300 kr. söfnuðust í pottinn

Félagið VILLIKETTIR hefur tekið að sér að halda utan um söfnun á verðlaunafé handa þeim sem kemur með upplýsingar sem leiða til ákæru á þeim sem er ábyrgur fyrir því að eitra fyrir köttum í nágrenni Hellisgerðis í Hafnarfirði.  Ef þú vilt taka þátt í að leggja verðlaunafé í pottinn þá getur þú lagt inn á reikning 0111-26-73030 kt 710314-1790 – skýring verðlaunafé

Stjórn VILLIKATTA ætlar að leggja fram 20 þúsund krónur úr vasa stjórnarmeðlima til að starta söfnuninni.

Ef þetta verður ekki til að upplýsa málið þá rennur verðlaunaféð jafnt í Sjúkrasjóð VILLIKATTA og til DÝRAHJÁLPAR.

Þeir sem hafa einhverjar upplýsingar um málið er bent á að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 eða senda tölvupóst á abending@lrh.is

frostilitli

Upprifjun á samskiptum VILLIKATTA við MAST árið 2016

Upprifjun á samskiptum VILLIKATTA við MAST árið 2016

Í ljósi frétta um Brúnegg og gagnrýni á MAST sem eftirlitisstofnun þá langar okkur aðeins að rifja upp með ykkur samskipti okkar við þá stofnun á þessu ári vegna 3ja mála sem við tilkynntum til MAST á þessu ári.

  1. 100 katta málið

Í apríl 2016 hafði kona samband við okkur þar sem hún var komin í vanda með offjölgun á köttum. Hún hafði áður átt samskipti við MAST fyrir einhverjum árum og þá voru öll dýrin aflífuð. Konan gat ekki hugsað sér að láta dýrin verða aflífuð og hafði því samband við VILLIKETTI.

Við höfðum samband við MAST og létum vita af þessu og jafnframt að við myndum fara á staðinn og kanna aðstæður því konan hafði heimilað okkur það. Þar voru 100 kettir og 6 hundar.  Mjög slæmt ástand var á staðnum, mikið af veikum köttum og kettlingum, enginn matur né sandur og ekkert rennandi vatn. Í þessari fyrstu ferð þá tókum við 27 ketti með okkur, veikustu dýrin og allar læður með kettlinga.

Við gáfum skýrslu til MAST og lýstum aðstæðum, og báðum þá að fara í málið.  Okkar skilningur var að MAST myndi fljótlega heimsækja heimilið og kanna aðstæður.  En ekkert gerðist vikum saman, svo við sáum okkur tilneyddar til að fara aðra ferð og sækja kettlingafullar læður og fleiri veikar kisur, auk þess að fara með meira af mat, kattasandskassa, bæli og sand, en við reyndum að sjá til þess að dýrin hefðu nóg á meðan við biðum eftir MAST.  Þessi ferð var í lok apríl.   Við létum MAST aftur vita af heimsókninni og aðstæðum.

Enn bjuggumst við við að MAST myndi fara á staðinn og kanna málið. Loks fóru þeir í eina heimsókn og það tók langan tíma að gefa út skýrslu sem send var eigandanum og henni gefinn frestur til úrbóta.  Á meðan áttu dýrin að svelta, deyja og fjölga sér að vild. Við fórum því í 3ju ferðina til að sækja dýr, þann 27.4. og sóttum veikar kisur og fórum með mat og sand.  4. ferðina fórum við stuttu síðar, í apríllok 2016, tókum enn fleiri kisur og ennþá var eigandinn á fresti til að bæta ástandið. Þann 4. maí fórum við í 5. sinn og sóttum fleiri kisur og fórum með mat og sand.   Þann 14. júlí var farið í 6. ferðina og sóttar veikar kisur, kettlingafullar kisur og nýgotnar læður og einnig 4 illa farnir hundar sem hundasamfélagið á Facebook tók upp á sína arma.

Þegar þarna var komið vorum við orðnar ansi súrar út í MAST sem hafði látið ástandið viðgangast síðan í lok mars, 3 og hálfur mánuður án þess að þeir gerðu neitt nema fara í 2 eftirlitisferðir á heimilið, skrifa skýrslu og gefa eiganda frest.  Á meðan voru fárveik dýr á heimilinu sem sultu og kettlingar héldu áfram að fæðast.  Niðurstaðan varð svo sú að það var „okkur“ að kenna að við hefðum farið að skipta okkur af þessu máli, þá var það komið á ábyrgð VILLIKATTA, við sátum uppi með allan kostnað sem af þessu hlaust og ábyrgðina á öllum dýrunum sem við björguðum úr þessum hörmungar aðstæðum.

Í lok júli voru eftir um 25 kisur í húsinu og 2 hundar.   MAST taldi þá ástandið orðið viðundandi og gaf eiganda heimild til að halda þeim dýrum sem eftir voru.  Við ákváðum því að fara með allar kisurnar sem eftir voru í geldingu og var það gert í 3 hollum, þannig gátum við tryggt að þær sem eftir voru myndu a.m.k. ekki halda áfram að fjölga sér.

Það reyndist okkur mjög erfitt að fá upplýsingar frá MAST á meðan á þessu máli stóð, þeir báru við upplýsingarstefnu stofnunarinnar og að stofnunin veitir ekki upplýsingar um aðgerðir hennar í málum sem eru í gangi hverju sinni.

Ábyrgðinni var varpað yfir á félagið Villiketti af því við stigum inn í málið, enda töldum við það skyldu okkar samkvæmt dýraverndarlögum að bjarga dýrum í neyð meðan stofnunin MAST aðhafðist lítið sem ekkert, nema skrifa skýrslur og gefa fresti á kostnað dýranna sem enn dvöldu við hungursneyð og veikindi.

  1. Mál meindýraeyðis sem sagðist hafa fangað 16 villiketti í Hafnarfirði, m.a. eyrnaklippta ketti sem Villiketti höfðu látið gelda í júlí 2016

Annað mál sem við tilkynntum til MAST á árinu var vegna meindýraeyðis sem sagðist hafa fangað 16 villiketti í bæjarlandi Hafnarfjarðar.  Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Hafnarfjarðarbær hafði alls ekki beðið um þessa föngun og ekki heldur Heilbrigðiseftirlitið.  Lögmaður Hafnarfjarðarbæjar og Villikettir sendu sameignilega kvörtun til MAST yfir framferði þessa meindýraeyðis þann 25.7.2016.  Síðan þá hefur lögmaður félagsins ítrekað reynt að fá upplýsingar um gang mála og niðurstöðu en ekki verið svarað.  Nú eru komnir rúmir 4 mánuðir síðan kvörtunin var send og ennþá ENGIN svör.

  1. Mál 6 kettlinga sem hent var út við ruslagám í Njarðvík

Þriðja málið sem við tilkynntum til MAST varðaði 6 kettlinga sem hent var út eins og hverju öðru rusli við gáma í Njarðvík í kringum 11. ágúst 2016. Því máli var vísað til meðferðar á stjórnsýslusvið, og þau áttu að taka ákvörðum um refsingu fyrir þetta brot.  7.11.16 var það mál ennþá í vinnslu á sviðinu þegar grunur kom upp um að aftur hefði kettling verið hent út af þessu heimili og við tókum hann inn.

Stjórn VILLIKATTA þykir ástæða til að MAST endurskoði verkferla sína þegar kemur að dýravelferðarmálum.  Málin dragast allt of lengi og skortur er á viðbrögðum og úrræðum í svona málum. Sveltandi, deyjandi dýr þola ekki að bíða eftir að málið fari í gegnum margra mánaða skriffinskuferli sem svo kannski endar bara með aflífun dýranna vegna þess að önnur úrræði virðast ekki vera fyrir hendi.   Engin dýraathvörf, enginn fjárstyrkur til góðgerðafélaga sem hugsanlega tækju að sér að sinna svona málum, engar lausnir nema aflífun dýranna.

Forstjóri MAST lofaði bótum og betrun í fjölmiðlum, nú er lag fyrir MAST að bæta úr ofantöldum vanköntum og svara þeim erindum sem við nefndum hér að ofan.

Umfjöllun Fjölmiðla um 100 katta málið:
https://www.villikettir.is/2016/07/27/adkoma-villikatta-ad-bjorgun-75-katta-ur-slaemum-adstaedum-a-sudurnesjum-i-mars-2016/

Umfjöllun Fjölmiðla um Meindýraeyðismálið:

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/09/13/villikettir_hugsanlega_felldir_i_leyfisleysi/

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/07/22/utilokar_adkomu_baejarstarfsmanns_3/

 

Umfjöllun um kettlingana 6:
http://www.dv.is/frettir/2016/6/28/sex-kettlingum-hent-eins-og-hverjum-odrum-urgangi/

http://www.vf.is/frettir/kettlingar-skildir-eftir-i-gardaurgangi/70548

Eitt annað mál sem Villikettir komu að snemma á árinu:
http://www.visir.is/-folk-sem-vildi-adstoda-en-var-i-raun-ad-gera-illt-verra-/article/2016160219374

Júlíaa

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Deildu þessari færslu á Facebook með því að smella á F hnappinn hér að neðan

Jólamerkimiðar 2016 komnir í sölu

Nýju jólapakka merkimiðarnir eru komnir. Þá prýða kisur úr 100 kattahúsinu sem við björguðum úr afar slæmum aðstæðum á þessu ári. Einnig eru þarna kettlingar sem félagið Villikettir hefur bjargað og komið á heimili á árinu. 20 stk. í pakka – 2200 kr. sendingargjald innifalið. Pantið á villikettir@villikettir.is eða í skilaboðum á facebook.

Einnig verður hægt að kaupa merkimiðana í verslun Máls og Menningar við Laugaveg, versluninni Iðu Ziemsen Vesturgötu 2a og verslunum ITA við Hótel Sögu og ITA – Iceland Travel Assistance | Grófin 1, 101 Reykjavík

jolakort

Matarsöfnun fyrir villiketti 16.10.16

Þann 16.10. nk. er alþjóðlegi villikattadagurinn.  Þennan dag ætlum við hjá VILLIKÖTTUM að hrinda af stað matarsöfnun fyrir villikettina.  Við erum í samvinnu við Gæludýr.is og verðum staðsett með stöfnunarkerru við Smártatorg og Korputorg frá 16.10. til 22.10.  Við munum vera á Smáratorgi að kynna félagið þann 16.10. en svo verður söfnunarkerran okkar á staðnum út vikuna þar og einnig í versluninni við Korputorg.   Við tökum við öllum mat sem getur nýst villiköttum,  blautmat, þurrmat, harðfisk, kisunammi, kattasand, leikföng, ullarteppi o.s.frv.   Matarsöfnunin verður einnig í Reykjanesbæ, við Bónus Fitjum.

Við hvetjum alla til að leggja þessu verkefni lið og taka þátt í að gera líf villi- og vergangskatta bærilegra næsta vetur.

Matarsöfnun
Söfnum mat fyrir villikettina

Aðkoma Villikatta að björgun 75 katta úr slæmum aðstæðum á suðurnesjum í mars 2016

Félagið Villikettir kom að björgun tuga katta sem haldið var í húsi á suðurnesjum en þar var eigandi með um 100 ketti á heimilinu ásamt 6 hundum.  Kettirnir bjuggu við afar erfiðar aðstæður, margir veikir, hungraðir, kettlingafullar læður og kettlingar.  Félagið hefur í Júlí þegar þetta er skrifað tekið til sín um 75 ketti og 4 hunda, en ennþá eru á heimilinu í kringum 30 kettir og 2 hundar.  Hér fyrir neðan eru hlekkir á blaðagreinar um málið.

Umfjöllun mbl.is um málið

Umfjöllun RUV um málið

Meira frá RUV

DV fjallar um málið

Reykjavík Síðdegis fjallar um málið

Kvennablaðið fjallar um málið

Víkurfréttir fjalla um málið

Iceland Review

SadEyes EmblaJúlíaaMandý MillySvartur-Zorro

Matargatið

Matargatið er hugmynd sem varð til hjá nokkrum félagskonum. Þörfin var orðin töluverð mikil á matargjöfum á hverjum degi á nokkrum svæðum og til að koma til móts við það þá þróaðist þessi hugmynd. Matargatið tekur um 5-6 kg af mat og er viðhaldsfrítt með öllu, það er unnið úr gúmmíhellum, pípulögnum og plasti og þolir því vel að blotna. Kostnaður við hvert Matargat er um 6000 kr en með styrkjum þá vonumst við til að geta framleitt nokkur sem hægt er að dreifa á stærstu kattasvæðin.

1150139_1322895184403710_7529185844762489062_n10398999_1322895161070379_1532218414487907662_n

 

 

 

 

 

 

 

Matargötin eru nú orðin 5 talsins og eru að nýtast kisunum stórvel. Maturinn helst þurr og fínn og kisurnar eru búnar að læra nokkuð vel á kerfið, stundum þarf að klóra aðeins eftir matnum og það eru þær farnar að gera. Þær eru í skjóli þegar þær nærast því skýlið nær nokkuð vel út yfir fóðurskálina. Við þökkum eiginmanni einnar félagskonu sérlega fyrir veitta aðstoð en hann hafði umsjá með framkvæmdinni frá a – ö

12376638_1322895174403711_4074870249751755462_n

Ef þið viljið leggja okkur lið og styrkja þetta verkefni þá er styrktarreikningurinn hér : 0111-26-73030 kt 710314-179 það mætti setja í skýringu „Matargat“ en allur aur og styrkir stórir sem smáir er að sjálfsögðu vel þegnir.

12773455_10153918686761894_1707938498_o

Fyrsta Matargatið sem nú hefur verið endurbætt ognú nær skýlið niður á gúmmíbotninn og heldur því betur vætu frá enda veðurfarið á Íslandi ekki alltaf skemmtilegt.

12804786_1301057886587440_3167537091313700515_n

 

 

12809608_1301058029920759_1290861939866653535_n

12813897_1301058023254093_8396659742422335674_n