fbpx

Svar Sjálfstæðisflokkurinn Vestmannaeyjum

Sæl verið þið og takk fyrir gott spjall og kynningu á félaginu.

Við í framboðinu erum sammála um að það er þarft og gott starf sem þið vinnið. Við höfum ekki formlega dýraverndunarstefnu, en förum að lögum og bæjarmálasamþykktum sem varða velferð dýra. Við höfum áhuga á að skoða betur hvað bærinn getur gert til að tryggja velferð dýra og við erum ánægð með það starf sem þið eruð að vinna og erum opin fyrir samstarfi og samræðum um dýravelferð.

 Helga Kristín Kolbeins

frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Svar Samfylkingin í Hafnarfirði

Samfylkingin í Hafnarfirði leggur áherslu á dýravelferð og vill skoða enn betur með hvaða hætti bærinn geti betur tryggt velferð dýra. Við höfum ekki formlega dýraverndunarstefnu en förum að lögum sem eiga við um velferð dýra. Við höfum hins vegar áhuga á að setja okkur slíka stefnu og munum taka það upp á flokksgrundvelli við fyrsta tækifæri.

Af gefnu tilefni má nefna að þegar ný dýraverndunarlög voru til umfjöllunar fyrr á þessu ári gerði okkar fulltrúi í Umhverfis- og framkvæmdaráði athugasemdir við eldri lög og lét gera á þeim ákveðnar breytingar. Þær breytingar vörðuðu einkum að tekin yrðu út ákvæði um aflífun villtra katta innan ákveðinna tímamarka. Um það ferli má lesa í fundargerðum bæjarins.

Kveðja frá Samfylkingunni í Hafnarfirði

Jón Grétar Þórsson formaður

Svar Framsókn og óháðir í Árborg

  1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?

Stefna okkar er að fara eftir dýraverndunarlögum og þeim reglum sem gilda um dýrahald í sveitarfélaginu.

     2.Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?

Já, að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda.

Kv,
Framsókn og óháðir í Árborg.

Helgi S Haraldsson.

Svar frá Framsóknarfélagi Grindavíkur

Komið þið sæl, við ákváðum að svara þessum 2 spurningum saman.

Flokkurinn hér í Grindavík hefur ekki mótað sér stefnu í dýravelferðarmálum en erum opin fyrir því að koma á slíkri stefnu.  Við erum afar fylgjandi dýrahjálp og erum meðal annars að kynna okkur starf annara sveitarfélaga, samanber velferðaráð Kópavogs.
Við erum hrifin af ykkar starfi og opin fyrir samstarfi og samræðum um dýravelferð.

Með kærri kveðju

Framsóknafélag Grindavíkur

Bestu kveðjur

Sigurður Óli Þórleifsson

Svar BF Viðreisn Kópavogi

Okkur í BF Viðreisn er umhugað um velferð dýra, bæði gæludýra sem og þeirra sem lifa villt og á vergangi. Við viljum leyfa dýrahald í fjölbýli í húseignum á vegum Kópavogsbæjar því það þykir sannað þykir að tengsl við dýr veita fólki gleði og huggun. Við stefnum líka á að koma upp hundagerðum í bæjarfélaginu á nokkrum stöðum svo ekki þurfi að fara um langan veg til þess að leyfa besta vininum að spretta aðeins úr spori.

Við höfum ekki enn sett okkur formlega dýraverndunarstefnu en við styðjumst við lög um velferð dýra frá 2013 nr 55 og markmið þeirra, sbr., 1 grein laganna. Við vilja vinna með dýraverndunarsamtökum og félögum sem koma að dýravelferð í landinu. Samtökin Villikettir hafa unnið mikið og gott starf við að tryggja velferð katta. Bæði týndra heimiliskatta sem og villikatta, TNR er að okkar mati mannúðleg aðferð við fækkun villikatta.

Bestu kveðjur,

BF Viðreisn

Miðflokkurinn í Hafnarfirði

Heil og sæl.

Það er ótrúlega mikilvægt og þarft starf sem er unnið hjá samtökum eins og ykkar. Við í Miðflokknum erum afar fylgjandi dýravernd og dýrahjálp og teljum að það þurfi að styðja vel við þessa málaflokka. Það þarf að huga vel að vergangs- og villtum dýrum og reyna að halda áfram með og bæta það góða starf sem nú þegar er verið að vinna til að reyna að hlúa að þeim dýrum en einnig þarf að reyna að koma í veg fyrir að fleiri dýr fari á vergang. Einnig þarf að huga vel að gæludýraeigendum og viljum við m.a. koma upp skipulögðu hundasvæði með góðri aðstöðu fyrir hundaeigendur. Við höfum ekki mótað okkur beint sérstaka stefnu í dýravelferðarmálum enda flokkurinn ungur og ekki búið að fullmóta öll stefnumál enn. Hitt er annað mál að við höfum rætt þetta okkar á milli og erum við öll sammála um að þetta er eitthvað sem má ekki gleymast og þarf að hlúa að. Við værum gjarnan til í að koma í heimsókn til ykkar við tækifæri og kynna okkur betur starfsemi ykkar.

Fyrir hönd Miðflokksins í Hafnarfirði, Bjarney Grendal

Svar frá Sjálfstæðisflokknum í Grindavík

Sæl og takk fyrir skemmtilegt og fróðlegt spjall hér í Grindavík á dögunum.

Við höfum rætt þetta innan okkar raða eftir það samtal og þetta erindi ykkar. Við erum sammála um að þetta er gott starf sem þið vinnið og að við viljum stuðla að því að gert verði svona samkomulag við ykkur eins og þið hafið verið að gera við önnur sveitafélög. Þetta er mikilvægt, gott og mannúðlegt starf sem þið eruð að vinna og við viljum stuðla að því í okkar bæjarfélagi.

kv.

Vilhjálmur Árnason, kosningastjóri XD í Grindavík.

Svar frá VG í Kópavogi

Sæl og takk fyrir spurningarnar.

Hér má sjá svör Vinsti grænna í Kópavogi

  1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ? Vinstri græn eru í fararbroddi í umhverfis- og dýravernd. Í miklu þéttbýli eins og Kópavogi, er alltaf þessi fína lína milli verndar villtra dýra og friðhelgi og öryggi mannfólksins. Í Kópavogi eru auðvitað ekki refir, minnkar eða hreindýr, en hér eru mýs, rottur og villikettir og jafnvel kanínur, svo og fuglar himinsins sem bæjarbúar ( þar á meðal ég) gefa fæði um veturna. Flestir vilja verja heimkynni sín fyrir utanaðkomandi dýrum eins og rottum, sem þar að auki eru smitberar.Hvað varðar vergangsdýr, eins og villiketti, þá er auðvitað mikilvægt að koma þeim til hjálpar og virða að þarna eru lifandi verur, finna þeim skjól og heimili. Það virðist ekki vera mikið um vergangs ketti í Kópavogi og lítið verið rætt hér. Ég tel að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu ættu að eiga samstarf um þetta málefni.
  2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ? Vinstri græn er með stefnu í dýraverndarmálum, sem byggjast á mikilvægi verndar líffræðilegs fjölbreytileika. Hvað varðar heimilisdýr og vergangsdýr gildir almennt sjónarmið um mannúð.

    Kveðja, Margrét Júlía Rafnsdóttir, oddviti Vinstrí grænna í Kópavogi

Svar frá Sósíalistaflokknum Kópavogi

Sælir villikettir!

1. Við erum ekki með stefnumál í dýraverndunarmálum eða stefnu fyrir heimilsdýr né dýr sem lifa frjáls úti í nátturinni fyrir þessar kosningar.

Flokkurinn eru ungur eða eins árs og höfum við verið að vinna í okkar stefnumálum allt þetta ár. Þetta tekur tíma enda er samfélagið okkar margflókið.

Ég skrifa fyrir hönd flokksins í þetta skipti. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að dýravernd sé mikilvæg. Meðferð dýra skiptir mjög miklu máli og finnst mér því ykkar starf vera mikilvægt. Sjálfur á ég tvo ketti, Rósítu og Fransisco. Að auki er ég með stórt kattarbúr úti í skúr sem er fyrir veika ketti sem við tökum í fóstur og fá að vera hér á meðan þeir eru að jafna sig. Frambjóðandinn sem er í öðru sæti á listanum okkar á 9 heimilsdýr. Þannig að okkar hugur er hjá málleysingjum svo að það fari ekki að milli mála.

2. Flokkurinn á eftir að móta stefnu í þessum málaflokki.

Sósíalistaflokkurinn í Kópavogi

Svar frá Eyjalistanum

Sæl veriði,

Við hjá Eyjalistanum höfum í raun ekki rætt þessi mál mikið. Sjálfur hafði ég ekki velt þessu mikið fyrir mér fyrr en að kona kom hér í morgun og við ræddum þessi mál saman. Þannig að stefna í þessum málum er ekki til hjá okkur, enn að minnsta kosti. En fyrir mitt leyti get ég sagt að mér hugnast að sveitarfélagið taki höndum saman við m.a. ykkur um að sinna þessum málaflokki. Ekki er gott að félagið hafi ekki aðstöðu til að sinna þessu, því greinilega er þörfin mikil. Ég get sagt að þegar kemur að því að móta einhverja dýraverndunarstefnu er best að gera það í samráði við þá aðila sem hafa mesta þekkingu á þessu sviði.
Kv. Njáll.