Áramótapistill Villikatta

Áramótapistill Villikatta

Árið 2022 var svo sannarlega ekki minna annasamt en fyrri ár í starfi Villikatta. Um 220 kettlingar og yfir 380 fullorðnir kettir voru á einum eða öðrum tímapunkti í umsjá félagsins á landsvísu á árinu. Yfirleitt er ekki erfitt að finna framtíðarheimili fyrir kettlinga í okkar umsjá, en það hefur reynst okkur erfiðara að finna ný heimili fyrir fullorðnu kisurnar okkar. Sem er miður, því þessir yndislegu kettir sem enda hjá okkur hafa margir hverjir átt erfitt uppdráttar og eiga svo sannarlega skilið að eignast sinn griðastað á góðum heimilum. 

Undanfarin misseri hefur starfsemi Villikatta tekið ákveðnum breytingum að því leyti að enn stærri hluti af þeim köttum sem koma til okkar eru svokallaðir vergangskettir. Þetta eru fyrrum heimiliskettir sem af einhverjum orsökum hafa farið á vergang, týnst eða hreinlega verið bornir út. Félagið er reglulega beðið um að koma og aðstoða við að ná inn köttum sem eru á þvælingi í kringum mannabústaði. Þegar þessir kettir eru teknir inn er byrjað á að athuga hvort þeir séu örmerktir svo hægt sé að hafa samband við eiganda. En ef örmerki finnst ekki og engir eigendur gefa sig fram þegar kisur eru auglýstar þá þarf að finna þeim ný heimili. Þessi gríðarlega aukning vergangskatta síðustu ár sýnir hversu mikilvægt það er að örmerkja alla heimilisketti, svo þeir komist hratt og örugglega heim til sín þegar þeir finnast. 

Nokkuð hefur verið um að slasaðir eða veikir kettir koma í okkar umsjá og hefur sjúkrasjóður félagsins fundið töluvert fyrir því. Dýralæknakostnaður er risastór útgjaldaliður í rekstri félagsins, þegar um er að ræða um 600 ketti og kettlinga á landsvísu yfir árið. Félagið starfar eftir „no-kill“ viðmiðum og því gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða og bjarga kisum í neyð. Því miður náum við þó ekki alltaf að grípa nógu snemma inn í hjá veikum villi- og vergangsköttum og því þurfum við stundum að leyfa kisu að fara til hinstu hvílu, og þá einungis ef það liggur fyrir í samráði við dýralækni að enginn möguleiki er á neinum lífsgæðum fyrir köttinn.  

Með árunum bætist við reynsla og þekking í starfið og nú er það svo að villtir kettir sem áður hefðu verið eyrnamerktir og sleppt aftur eru í auknum mæli teknir inn og reynt að manna. Það getur tekið tíma en tími og þolinmæði er einmitt það sem þessir kettir þurfa. Í kjölfar þessa breytinga í starfsháttum höfum við tekið inn eyrnamerkta ketti og þeim hefur verið gefinn möguleiki á að gerast heimilisköttur. Þó þessir kettir eru mjög varir um sig lengi vel þá sjáum við oftar en ekki að þeir eru því fegnir að komast inn í hlýjuna. 

Störf félagsins eru margvísleg og öll eru þau unnin í sjálfboðavinnu. Því treystir félagið á hóp sjálfboðaliða sem fúsir gefa köttunum af sínum tíma og sinna þeim af alúð og næmni. Það er ekki sjálfgefið og þeim er seint fullþakkað fyrir að gefa köttum, sem sumir hafa litla umhyggju fengið um ævina, sinn frítíma.  Kettirnir launa starfið ríkulega þegar árangur næst, en það er fátt sem gleður hjarta sjálfboðaliðans meira en fyrsta klappið eða fyrsta malið frá ketti sem kom hræddur og velktur inn. Ekki má heldur gleyma samstarfsaðilum okkar, kæru dýralæknastofunum sem finna alltaf tíma fyrir okkar skjólstæðinga og sinna þeim af alúð og fagmennsku.   

Villikettir gætu ekki haldið út þessu kröftuga starfi án allra kisuvinanna sem styrkja félagið reglulega á einn eða annan hátt – góðvild ykkar er ómetanleg. Hægt er að gerast félagi Villikatta og greiða árgjald, en nú er einnig hægt að greiða frjáls framlög í vefverslun félagsins, þar sem um er að ræða eingreiðslu. Svo ekki sé minnst á allan þann varning sem hægt er að versla í vefversluninni. Einnig er hægt að styrkja sjúkrasjóð Villikatta á landsvísu beint með millifærslu inn á kt. 710314-1790, reikn. 0111-26-73030, en sjúkrasjóðurinn greiðir fyrir allt frá bólusetningum að lífsnauðsynlegum aðgerðum fyrir skjólstæðinga okkar um allt land. 

Aðalfundur Villikatta

Aðalfundur Dýraverndunarfélagsins VILLIKATTA verður haldinn föstudaginn 8. apríl 2022 á Iða Zimsen bókakaffi, Vestgurgötu 2a, Grófin, Reykjavík
Fundur hefst kl 18:00
Dagskrá:
Almenn aðalfundarstörf, kosning stjórnar og opnar umræður. Atkvæðarétt á aðalfundi hafa þeir sem greitt hafa félagsgjöld í félagið í 2 ár.

Tillögur að lagabreytingum verða að berast stjórninni viku fyrir aðalfund og verða tillögurnar síðan bornar upp á aðalfundi. Einnig skulu framboð til stjórnar berast núgildandi stjórn viku fyrir boðaðan aðalfund. Hægt er að senda á netfangið: villikettir@villikettir.is

Fullgildir meðlimir geta ekki boðið sig fram á fysta aðalfundi eftir að hafa gerst fullgildur meðlimur heldur á næsta aðalfundi þar eftir.
Kjörgengi til stjórnar eru meðlimir sem að hafa haft fulla meðlimagildingu í 2 ár, nema með samþykki sitjandi stjórnar.
Nýjir meðlimir geta ekki haft áhrif á eða komið með tillögur að lagabreytingum fyrr en á öðrum aðalfundi eftir fulla meðlimagildingu.
Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða. Allar aðrar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

Við vekjum athygli á því að aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi. Vegna aðstæðna í þjóðfélaginu eru þáttakendur eru beðnir um að merkja við mætingu hér á viðburðinumLög félagsins https://www.villikettir.is/log-felagsins/

Sagan hans Reynis

Hann Reynir kom í búr hjá Villiköttum í janúar 2021. Hann var tekinn inn og geldur en átti ekki afturkvæmt á svæðið sem hann fannst á. Stundum sjá sjálfboðaliðar eitthvað í villingunum sem gefur trú um möguleikann á að gera þá að væntanlegum heimilisköttum. Því var ákveðið að gefa honum Reyni séns og sjá hvort ekki rættist ´´ur kappanum.

Jólakveðja frá Villikettir Suðurlandi

Nú hefur félagið Villikettir verið starfrækt á Flúðum í heil tvö ár og vegna þess er kjörið að kynna þau verkefni sem félagið hefur fengist við á liðnum árum. En fyrir þá sem þekkja ekki til félagsins þá er það dýraverndunarfélag sem hefur þann tilgang að bæta bæði líf og velferð útigangs- og villikatta á Ísland.  

Á árinu 2020 voru veiddir níu kettir á Flúðum og þar af fengu sjö þeirra heimili og tveir héldu áfram lífi sínu sem villikettir, þeir síðastnefndu voru þó eftir læknisskoðun geldir og eyrnaklipptir og koma daglega við í matarstöð sem hefur verið sett upp þar sem þeir fundust.

Árið 2021 byrjaði rólega en tók kipp í haust. Í október var félaginu tilkynnt um að fjórir kettlingar aðhefðust á gámasvæðinu, en síðar kom í ljós að um var að ræða sjö kettlinga, tveir úr eldra goti ásamt móður. Það var mikil gleði að ná þessari kattafjölskyldu inn í hús og í skjól hjá sjálfboðaliðum Villikatta félagsins. Síðar um haustið voru fangaðir þrír kettlingar, um 4-5 mánaða gamlir, til viðbótar en þeir höfðu verið einir á vergangi. Ein eldri ógeld læða var fönguð en hún hefur líklega verið fyrrverandi heimilisköttur. Þá var að lokum náð í skottið á gráum ógeldum fressketti sem hafði verið á vergangi síðan árið 2017. Samtals voru því fangaðir 12 kettlingar auk tveggja fullorðna katta sem fara vonandi allir inn á heimili. 

Villilkattafélagið er rekið í sjálfboðavinnu dýravina með stuðningi einstaklinga og fyrirtækja sem hafa verið ötul í að veita því styrks í formi peninga og matargjafa. En við bendum áhugasömum sem hafa áhuga á því að veita félaginu stuðning svo að það geti starfað áfram að hægt er að styrja starfið með því að

Nýjar vörur í vefverslun

Listakonan Striga teiknaði og gaf Villiköttum þessa lýsandi mynd af Villiketti.  Myndin prýðir boli sem seldir eru til styrktar starfi Villikatta á vefverslun félagsins. 
Fara í Vefverslun
Striga er tattoo og illustrator listakona sem kemur frá hjarta Evrópu. Hún býr á Íslandi þessa stundina og vonar að vera hér til frambúðar.

Bílskúrssala

Bílskúrssala

Villikettir hafa verið með bílskúrsölu á Fiskislólð 79A seinustu tvær helgar og 17 júní. 27. júní verður lokadagur. Endilega kíktu á kjörstað og rendu svo við hjá okkur. Við söfnum fyrir húsnæði og margt smátt gerir eitt stórt. Hlökkum til að sjá þig.

Skotið á Grámann með haglabyssu.

Grámann er villiköttur úr Reykjanesbæ sem hefur haldið til við Kölku. Starfsmenn þar hafa veitt honum húsakjól og séð honum fyrir mat. Hann var geldur á vegum Villikatta fyrir um fjórum árum síðan og var þá ansi mikill villingur en er orðinn voða ljúfur og góður með tímanum og kemur alltaf i klapp þegar maður er að henda rusli.
Starfsmenn Kölku tóku eftir því fyrir nokkru síðan Grámann var farinn að haltra og farinn að slappast og orðinn ólíkur sjálfum sér. Hann var hættur að þvo sér og farinn að horast svo að sjálfboðaliðar Villikatta náðu í hann og fóru með til læknis. Í röntgenmyndatöku kom í ljós að hann var með högl víðsvegar um líkamann. Já þið lásuð rétt, einhver hefur skotið á hann með haglabyssu! Búið er að tilkynna þetta til lögreglunnar á Suðurnesjum.
Greyið kallinn er líklega búin að vera með þessi högl í sér í einhverja mánuði og þetta er búið að taka mjög á hann. Hann er með mikla sýkingu og var lagður inn yfir nótt hjá þeim á Dýralæknastofu Suðurnesja þar sem þær hjúkruðu honum. Nú er hann á góðu fósturheimili meðan verið er að skoða hvað hægt er að gera. Næsta skref er að hann fer eftir helgi í röntgen á munni til að sjá hvað er í gangi þar en hann er með slæman tannstein öðrumegin sem þarf að laga og hann er líka með hagl í kinninni sem verður metið hvort hægt sé að taka úr. Fóturinn hans verður skoðaður betur en eitt haglið skaddaði liðband hjá honum.
Hann Grámann er orðinn svo ljúfur og góður og á svo skilið allt það besta og við ætlum að reyna allt til að hjálpa honum. Við munum líka finna honum heimili þar sem hann ætti vonandi extra góð efri ár .
Allt þetta verður þónokkur kostnaður því biðjum við ykkur elsku kisuvinir um hjálp. Margt smátt gerir eitt stórt ❤️

Styrktarreikningur : 0111-26-73030 kt: 710314-1790

Matur fyrir villiketti

Nú er vetur konungur genginn í garð og harðnar á dalnum hjá villiköttum. Félagið er með fastar matargjafir á þó nokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem við sinnum villingunum okkar. Nú er staðan sú að matarbirgðir félagsins eru nánast á þrotum og leitum við því til ykkar kisuvina um aðstoð. Allur kisumatur er vel þeginn bæði blautmatur og þurrmatur. Ef þið eruð aflögufær þá hefur verslunin Gæludýr.is á Smáratorgi tekið við gjöfum til okkar.