Í dag er Rainbow Bridge Rememberance Day og við minnumst þeirra sem hafa farið yfir regnbogabrúnna Það er því miður hluti af okkar starfi að kveðja kisur eins og það er að taka á móti þeim – og í öllum tilfellum getum við að minnsta kosti glaðst yfir því að þær kisur sem falla frá fengu að upplifa hlýjuna innan um mannfólkið og deyja í öruggu umhverfi. Í ár höfum við fengið allan skalann, frá andvana fæddum kettlingum að öldungum sem hreinlega kláruðu sinn lífskraft.
Í tilefni dagsins þá viljum við segja ykkur söguna af Jennýju. Við vonum að Jenný okkar vekji alla til umhugsunar þegar það kemur að því hvort það sé betra að gelda kettina sína eða ekki.
Jenný var tæplega 5 ára gömul og kom til okkar með 8-9 vikna gamla kettlinga. Hún fékk yndislegt fósturheimili sem aðstoðaði hana við að koma kettlingunum á legg og þegar kettlingarnir voru tilbúnir fóru þeir á sín framtíðarheimili. En strax morguninn eftir að kettlingarnir fóru á heimili beið fóstrunnar skelfileg sjón – Jenný lá dáin á gólfinu
Það hafði ekkert gefið til kynna að Jenný hafði verið veik, en fóstran hafði fundið fyrir einhverju skrítnu við magasvæðið daginn áður og hafði ætlað með hana í skoðun strax eftir helgi. Þar sem Jenný dó svo skyndilega þá vildum við frekari svör varðandi dánarorsök og óskuðum eftir krufningu.
Þegar við svo loksins fengum niðurstöðuna, kramdi það algjörlega hjörtun okkar. Jenný var kettlingafull, með 8 fóstur og gengin u.þ.b. mánuð! Ógeldur fress hefur sennilega náð henni örfáum dögum áður en hún kom til okkar og líkaminn hennar einfaldlega gafst upp við álagið.
Við erum ekki að reyna að vera leiðinleg þegar við biðjum ykkur um að gelda kisurnar ykkar og sýna ábyrgð í verki! Við sjáum það reglulega hvað gerist þegar kettlingar verða kettlingafullir, þegar læður eignast got eftir got eftir got. Þegar kettlingar fæðast úti, nærast illa og koma veik til okkar. Þegar heimili fer úr því að eiga 5 kisur, í að eiga 15 kisur, í að eiga 30 kisur á innan við ári – því kisurnar voru aldrei geldar. Þegar kettlingar eru teknir of snemma frá móður sinni og systkinum.
Það erum við sem þurfum að takast á við afleiðingar af slæmum ákvörðunum. Við tökum að okkur kisurnar þegar allt fer úr böndunum, við tökum læðurnar þegar það hentar ekki lengur að láta þær eignast kettlinga, við tökum stressuðu eða árásargjörnu kisurnar sem misstu af uppeldistímabilinu hjá móður og systkinum.
Við vonum að þið hugsið til Jennýjar þegar þið hugsið hvað það væri nú krúttlegt að leyfa Snúllu litlu að eignast eitt got í viðbót. Eða þegar þið sjáið sama fólkið auglýsa kettlinga trekk í trekk.
Takk kærlega fyrir að gefa ykkur tíma til að lesa þennan pistil Ef þið viljið styrkja okkur sem tökum við öllum kisum í vanda, þá er hægt að leggja inn á sjúkrasjóðinn okkar: kt 710314-1790, rkn. 0111-26-73030 eða kaupa styrk á https://www.villikettir.is/…/styrkja-villiketti-um…/