fbpx

Annáll Villikatta 2024

Annáll Villikatta 2024

Nú enn eitt árið er liðið, það tíunda í sögu Villikatta. Árið 2024 var viðburðaríkt að mörgu leiti, skemmtilegt en afskaplega krefjandi. Það sem stóð upp úr á árinu er krafturinn og dugnaðurinn í sjálfboðaliðum félagsins, sem eru boðin og búin að fara út í hvaða veðri sem er, fórna tíma sínum og auka fermetrum fyrir ókunnugar kisur í neyð. Þó að það sé einstaklega gefandi að vinna með kisurnar okkar, þá er það erfitt og töluverð vinna sem býr að baki hverrar kisu sem kemur í hús, sem fær fæði og dýralæknaþjónustu á vegum félagsins og þar til hún fer heim eða á sitt framtíðarheimili. Við erum með fjöldan allan af sjálfboðaliðum um allt land sem sjá til þess að kisurnar okkar komist inn í hlýjuna og fái þá aðstoð sem þær þurfa.

Stóru verkefnin

Nokkur stór verkefni hafa staðið upp úr á árinu. Árið hófst með hvelli, þegar enn eitt eldgosið varð til þess að neyðarstigi var lýst yfir á Suðurnesjum, en þar stefndi í að hraunið myndi valda heitavatnsleysi á stóru svæði á köldum vetrarmánuði. Þá voru góð ráð dýr, en 23 kisur þurftu nauðsynlega að komast í örugga hlýju. Með frábærri samvinnu sjálfboðaliða hjá nokkrum deildum á suðvesturhorninu tókst að koma öllum kisunum til annarra deilda, í kot og á fósturheimili – og margar kisur fundu sín framtíðarheimili áður en það kom að því að fara aftur heim á Reykjanesið.

Júlí mánuðurinn var stærsti mánuðurinn hjá okkur í nýskráningum á kisum, en þá komu til okkar um 60 kisur! Stór partur af þessum fjölda kemur úr stóru verkefni sem Vestfjarðardeildin okkar lagðist í og við þurftum meðal annars að treysta á flugfélög til að koma köttum á milli landshluta svo hægt væri að koma þeim öllum í skjól.

Á svipuðum tíma stóð Suðurlandsdeildin í öðru eins verkefni, þar sem þurfti að tæma svæði og ná inn eins mörgum læðum og kettlingum og hægt var. Á þessum tíma vorum við með yfir 200 ketti á okkar framfærslu, þar af um 60 kettlinga sem þurfti að ala upp og gera tilbúin fyrir heimili. Til samanburðar þá vorum við með um 80-90 kettlinga allt árið 2023.

Á haustmánuðum náðist einnig að ganga frá samningi við Flóahrepp á Suðurlandi, sem er einstaklega gleðilegt þar sem Suðurlandsdeildin okkar hefur tekið á móti sínum skerf af köttum af svæðinu undanfarin ár.

Það kom okkur töluvert á óvart að desember var okkar næst stærsti mánuður. Meðal annars þá tókum við á móti um 30 jólaköttum af sama heimili, og í staðin fyrir hefðbundinn jólaundirbúning fór aðventan hjá mörgum sjálfboðaliðum í að redda þeim húsaskjól og dýralæknaþjónustu. Allt í allt þá aðstoðuðum við fleiri en 50 ketti í desember.

Við erum alltaf fegin að geta bjargað kisum úr svona aðstæðum, en raunin er að það er virkilega íþyngjandi fyrir félag eins og okkar að sinna þessum fjölda, finna húsnæði, greiða dýralæknakostnað og að finna heimili sem eru tilbúin að taka við kisum með lítil hjörtu. Þessi verkefni eru bein afleiðing þess að eftirlitsstofnanir og sveitarfélög eru ekki að sinna sínum skyldum hvað varðar dýraeftirlit og dýravelferð. Í mörgum tilfellum eru þar til gerðar stofnanir meðvitaðar um ástandið en gera lítið sem ekkert til að tryggja velferð dýranna. Eigendum er leyft að fresta eftirlitsskoðunum um marga mánuði og á meðan tvöfaldast eða þrefaldast magn katta. Við viljum ALLTAF vinna með og aðstoða eftirlitsstofnanir og sveitarfélög til að vinna í þessum málum, en okkar hendur eru bundnar og við getum ekkert gert án samþykkis eiganda eða í samvinnu við stofnanir sem bera ábyrgð á dýravelferð.

Það er okkar einlæga von að árið 2025 verði árið þar sem þessi málaflokkur fær yfirhalningu og stjórnvöld taki ábyrgð á því álagi sem liggur á mörgum dýraverndunarsamtökum trekk í trekk.

Viðburðir og fjáröflun

Í apríl bar til tíðinda á aðalfundi Villikatta, en Arndís Björg Sigurgeirsdóttir, einn stofnenda Villikatta og formaður félagsins til fjölda ára, rétti keflið áfram til nýrrar stjórnar og Jacobina Joensen tók við formennsku félagsins. Arndís er þó hvergi nærri hætt að sinna kisunum okkar, og heldur áfram mikilvægu sjálfboðaliðastarfi.

Við héldum líka upp á 10 ára afmæli félagsins í október síðastliðinn, og sá viðburður fór langt fram úr okkar björtustu vonum. Okkur hefur lengi langað til að halda viðburð sem þennan, til að sýna vinum og velunnurum okkar hvað felst í starfinu og fræða um kisurnar okkar. Dýrheimar lánuðu okkur sal og við áætlum að um 200 kisuvinir hafi heimsótt okkur yfir daginn og allt í allt safnaðist 401.000 kr í sölu og frjálsum framlögum.

Á árinu voru fjölmargir fjáröflunarviðburðir, svosem Purrlesque, Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka og listaverkauppboð til styrktar sjúkrasjóðs Villikatta. Þá stóðu sjálfboðaliðar einnig vaktina á fjölmörgum mörkuðum vetur, sumar, vor og haust, á bæjarhátíðum og kattasýningum.

Stuðningur

Síðastliðið sumar fengum við alveg hreint dásamlega sumargjöf og risa stuðning frá Dýrheimum og Royal Canin á Íslandi. Þar með hófst ótrúlega skemmtilegt og gefandi samstarf, en Dýrheimar lánuðu Villiköttum húsnæðið sitt fyrir 10 ára afmælið okkar, þar sem Theodóra Róbertsdóttir, dýrahjúkrunarfræðingur Dýrheima hélt fyrirlestur um næringu katta. Við hlökkum til frekara samstarfs við þau á komandi árum!

Petmark hefur einnig verið dyggur stuðningsaðili Villikatta í gegnum árin, og meðal annars styrkir alfarið útgáfu dagatals Villikatta eins og fyrri ár.

2024 í tölum

Alls voru um 600 kettir í okkar umsjá árið 2024 og rúmlega 200 kisur koma með okkur inn í nýtt ár.

😸 Um 400 „nýjar“ kisur komu til félagsins með einum eða öðrum hætti, þar af um 200 kettir sem koma af heimilum

💝 Tæplega 300 kisur fengu framtíðarheimili

🏠 Um 40 kisur fóru aftur heim til sín

🌲 13 villikisur fengu að fara aftur út, þar sem fólk fylgist með þeim og sér um að þær fái mat og aðstoð ef þær þurfa

💔 30 kisur fóru yfir regnbogabrúnna

Allar þessar kisur hafa skilið sitt eftir í hjörtum sjálfboðaliða og við höldum ótrauð áfram að sinna okkar skjólstæðingum og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja velferð dýra á Íslandi.

Við horfum spennt til nýs árs, með nóg af spennandi verkefnum sem þarf að vinna og nýjum og gömlum kisum að kynnast.

Gleðilegt nýtt ár, kæru kisuvinir. Takk fyrir ómetanlegan stuðning á liðnu ári 😻

Vilt þú hjálpa?

Frjáls framlög hjálpa okkur langmest í okkar vinnu. Hægt er að leggja beint inn á eftirfarandi reikning:

Reikningsnúmer: 0515-26-710314

Kennitala 710314-1790

Einnig er hægt að styrkja okkur með að greiða árgjald Villikatta, sem við sendum út í upphafi árs, eða versla í styrktarversluninni okkar.