Sjálfboðaliðar

Hjarta félagsins eru sjálfboðaliðarnir

Sjálfboðaliðar Villikatta sinna margvíslegum störfum innan félagsins, en það eru mörg handtök sem þarf að vinna til að okkar starfssemi gangi upp. Sem dæmi má nefna föngun og skönnun á köttum, umönnun katta í kotunum okkar, skráningar, utanumhald á dýralæknatímum og fósturheimilum, fjáröflun og svo margt, margt fleira.

Athugið — 20 ára aldurstakmark er fyrir sjálfboðaliða!

Vettvangsvinna

  • Setja upp og fylgjast með fellibúrum
  • Samskipti við fólk sem þarf aðstoð

Vettvangsvinna felst í því að fanga þá ketti og kettlinga sem þarf að hjálpa (aðstoða) með einum eða öðrum hætti. Búr eru sett upp á þeim svæðum sem kötturinn heldur til og síðan þarf að vakta búrin. Það getur tekið mislangan tíma að fanga ketti og því þarf að sitja yfir búrunum eða fylgjast með myndavélum. Þessi vinna er unnin í vöktum og eru búrin oft vöktuð allan sólarhringinn. Sjálfboðaliði á vakt þarf að geta stokkið til með stuttum fyrirvara þegar köttur kemur í búr.

Vaktir í kotum

  • Þrif og matargjöf
  • Venja kisur við snertingu
  • Klapp og leikur við þær kisur sem vilja

Villikettir starfrækja kot víðsvegar um landið. Þar eru hýstar bæði villtar kisur og þær sem finnast á vergangi, á meðan þær bíða eftir að komast heim eða í fóstur. Vinnan í kotinu felst aðallega í að hlúa að kotbúum. Þrif og matargjöf er stór hluti af því starfi, en einnig þarf að undirbúa vergangsketti fyrir nýtt heimili með klappi og leik. Vaktir eru þrisvar yfir daginn: á morgnana, eftir hádegi og á kvöldin.

Matargjafir

  • Fylla reglulega á matarbirgðir
  • Fylgjast með ástandi kattanna á svæðinu

Þegar villiköttum er sleppt aftur á sitt heimasvæði eftir geldingu, þarf að sjá til þess að þeir hafi mat og skjól fyrir veðri. Félagið er með matargjafir á ákveðnum svæðum í nokkrum bæjarfélögum. Þangað þarf að fara og fylla á matarílát og hafa eftirlit með að skjólhýsi séu í lagi. Í leiðinni er svipast um eftir íbúum svæðisins og athugað hvort þeir séu ekki við góða heilsu. Það fer eftir stærð svæðisins hversu langan tíma hver gjöf tekur, en yfirleitt er farið tvisvar til þrisvar í viku.

Fjáröflun

  • Hugmyndavinna
  • Vera vakandi fyrir styrkjum
  • Markaðir og viðburðir

Sá hluti fjáröflunar sem sjálfboðaliðar taka mestan þátt í, er að vinna í sölubás á mörkuðum og sýningum. Við seljum alls konar varning, allt frá Villikattabolunum okkar að handgerðum munum sem við fáum gefins frá okkar velunnurum. Stundum er líka þörf á aðstoð við að útvega fóður fyrir félagið. Að auki rekur félagið vefverslun sem selur boli, dagatöl, styrki og annað tilfallandi.

Skutl

  • Sækja gjafir til styrktaraðila
  • Skutla eða sækja kött til dýralæknis
  • Skutla eða sækja kött á fósturheimili

Oft þarf viljuga bílstjóra sem eru tilbúnir til að sinna alls kyns erindum fyrir félagið. Við fáum reglulega gjafir frá birgjum sem þarf að sækja, t.d. mat, sand og kisudót. Góðvinir félagsins gefa okkur einnig reglulega sængur, klifurkastala og annað sem þarf að sækja.

Að auki vantar reglulega skutlara til að fara með kisu til dýralæknis eða sækja til dýralæknis eftir aðgerð. Í þeim tilfellum þurfa kisur að vera mættar til dýralæknis fyrir kl 8:30 og oftast er sótt á milli kl 14 og 17 seinni partinn.

Þeir sem gerast sjálfboðaliðar hjá Villiköttum eru ekki bundnir við einn þátt starfsins, heldur geta valið það sem hentar hverju sinni. Það eina sem þú þarft til að gerast sjálfboðaliði hjá Villiköttum er vilji til að gefa tíma þinn og mikill áhugi á velferð katta.

Okkur vantar alltaf fleiri sjálfboðaliða um allt land. Ef þú hefur áhuga á að taka þátt í starfi Villikatta á einhvern hátt þá getur þú skráð þig hér fyrir neðan. Við hlökkum til að fá þig í hópinn 🙂