Annáll Villikatta 2025

Tögg

Uncategorized

Orð sem er ofarlega í huga eftir árið í ár er „fleiri”. Fleiri kisur, fleiri kettlingar, fleiri ferðir til dýralæknis. Fleiri sjálfboðaliðar, fleiri fósturheimili, fleiri styrkir. Fleiri ný heimili fyrir kisurnar okkar. Það hefur verið aukning á öllum sviðum, bæði góðum og slæmum – og líklega er það bara fínt að þetta haldist í hendur, en mikið væri nú gott ef það færi að draga úr fjölda katta í vanda.  

Við höfum fundið fyrir ómetanlegum stuðningi allt undanfarið ár. Í maí sendum við út ákall eftir fleiri fósturheimilum og ekki sátu kisuvinir auðum höndum og okkur bárust margar góðar umsóknir frá fólki sem vildi hjálpa. Sömuleiðis fjölluðu fjölmiðlar um ástandið hjá dýraverndunarfélögum, en við höfum líklega flest fundið fyrir því að það er aukning á gæludýrum í samfélaginu – og aukning á óábyrgum eigendum sem henda dýrunum sínum út, sleppa því að örmerkja eða láta læður eignast ítrekuð got alveg án þess að taka nokkra ábyrgð á stöðu heimilislausra katta á Íslandi í dag. 

Síðasta sumar fór að miklu leyti í að koma köttum fyrir á fósturheimilum, þar sem Suðurlandsdeildin okkar var á yfirsnúningi að vinna í tveimur stórum verkefnum. Mikill fjöldi af kettlingafullum læðum og læðum með kettlinga komu af tveimur svæðum á Suðurlandi og því hefur álagið verið gríðarlegt á sjálfboðaliðum og sjúkrasjóði. 

Í ágúst bauðst okkur samstarfsverkefni með Endurvinnslunni, en þá gat fólk valið að gefa andvirði einnar flösku eða dósar til Villikatta eða gefa allan dósapeninginn í sjúkrasjóðinn okkar. Þá hlupu einnig 10 kisuvinir fyrir félagið í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka og við fundum svo sannarlega fyrir miklum stuðningi og sjaldan hefur safnast jafn mikið og þá. 

Í september gátum við loksins tekið við mánaðarlegum styrkjum í gegnum Styrkja.is og á aðeins örfáum mánuðum fengum við yfir 70 verndara, sem greiða mánaðarlega inn á sjúkrasjóðinn okkar og tryggja því nauðsynlega dýralæknaþjónustu fyrir kisurnar okkar. 

Fimm umfangsmestu sveitarfélögin: 

  1. Rangárþing ytra, með rétt tæplega 80 kisur og kettlinga 
  2. Reykjanesbær 
  3. Reykjavíkurborg 
  4. Borgarbyggð 
  5. Hafnarfjörður 

Af þessum vafasömu topp 5, þá eru aðeins tvö sveitarfélög sem styrkja Villiketti að einhverju leyti: Reykjanesbær og Hafnarfjörður. 

Rangárþing ytra má einnig eiga það að þær kisur sem hafa verið að koma þaðan eru almennt með fleiri heilsufarskvilla en aðrar kisur, sem er akkúrat það sem gerist þegar kattahald fer úr böndunum og engin eftirfylgni er með dýravelferðarlögum. Þarna hafa kisur fengið að fjölga sér innan mjög afmarkaðs kisusamfélags og engar kisur bólusettar fyrir algengum vírusum fyrr en við stígum inn í málið. Rangárþing ytra er því líklega það sveitarfélag sem hefur kostað okkur mest, bæði fjárhagslega og andlega – enda ómæld vinna sem fer í að taka við þessum kisum, fara með til dýralæknis og almennt hlúa að þeim. 

Ef það er eitthvað sem við viljum sjá á nýju ári, þá er það meiri ábyrgð. Bæði viljum við sjá fleiri sveitarfélög starfa í þágu dýraverndar og framfylgja lögum um velferð dýra, og við viljum sjá fleiri gæludýraeigendur sýna ábyrgð með því að örmerkja og gelda kisurnar sínar. Svo erum við alltaf þakklát þegar góðhjartaðir og þolinmóðir einstaklingar eru tilbúnir að gefa feimnum fullorðnum kisum möguleika á sínum heimilum, hvort sem það er tímabundið fóstur eða til framtíðar. 

2025 í tölum 

Alls voru um 630 kettir í okkar umsjá árið 2025 og um 270 kisur koma með okkur inn í nýtt ár. 

😸 Um 420 „nýjar“ kisur komu til félagsins með einum eða öðrum hætti, þar af um 150 kettir sem koma af heimilum og 100 sem fundust á vergangi. Um 180 kettlingar annað hvort enduðu hjá okkur eða fæddust á fósturheimilunum okkar – sem er rosalegt magn! 

 💝 Um 300 kisur fengu framtíðarheimili. 

 🏠 Um 60 kisur fóru aftur heim til sín 

 🌲 26 villikisur fengu að fara aftur út, þar sem fólk fylgist með þeim og sér um að þær fái mat og aðstoð ef þær þurfa. 

 💔 30 kisur fóru yfir regnbogabrúnna. 

Allar þessar kisur hafa skilið sitt eftir í hjörtum sjálfboðaliða og við höldum ótrauð áfram að sinna okkar skjólstæðingum og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja velferð dýra á Íslandi. 

Við horfum spennt til nýs árs, með nóg af spennandi verkefnum sem þarf að vinna og nýjum og gömlum kisum að kynnast. 

Gleðilegt nýtt ár, kæru kisuvinir. Takk fyrir ómetanlegan stuðning á liðnu ári 😻

Want to help?

Mánaðarlegir styrkir hjálpa okkur gríðarlega mikið, en þeir tryggja stöðuga innkomu fyrir sjúkrasjóðinn okkar.

Einnig er hægt að styrkja okkur með að greiða árgjald Villikatta, sem við sendum út í upphafi árs, eða versla í styrktarversluninni okkar.

en_GB