Sæl veriði,
Svar frá Okkar Hveragerði
Komiði sælir kæru Villikettir og kærar þakkir fyrir bréfið.
Okkur, hjá Okkar Hveragerði, finnst starf ykkar Villikatta frábært og myndum við endilega vilja fá öflugt starf dýraverndunarsamtaka sem þessum, hingað í Hveragerði. Það er mjög mikilvægt að dýrin okkar séu örugg, en hér búa hundar og/eða kettir í nánast hverju húsi. Það skiptir gífurlega miklu máli að hlúa vel að gæludýrum og þar getur Hveragerðisbær bætt ýmislegt. T.d. með því að bæta aðstæður á hundasvæðum bæjarins, bæta starfsemi dýraeftirlitsmanns svo hans meginstarf sé ekki að fanga eftirlitslaus dýr heldur að veita fræðslu og leiðbeiningar til dýraeigenda um meðferð og umgengi um dýrin sem dæmi. Þá skiptir líka miklu máli að til staðar sé öruggt og aðgengilegt athvarf fyrir dýrin í Hveragerði þegar dýraeftirlitsmaður þarf að hafa afskipti af dýrum og taka þau til sín. Villikettir hafa eins verið fangaðir og þeim lógað um leið. Þessu viljum við breyta. Við viljum endilega vera í samstarfi við félagasamtökin Villiketti um að bæta þessi mál og heitasta óskin er að setja upp dýraathvarf.
Með kveðju,
Unnur og Njörður
Svar Samfylkingarinnar í Kópavogi
- Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu?
Ágætu dýravinir. Frambjóðendur Samfylkingarinnar í Kópavogi hafa fylgst með starfi Villikatta utan frá undafarin ár og við berum virðingu fyrir því mikilvægi starfi sem þið hafið sinnt. Við höfum tvímælalaust áhuga á samtali við forsvarsfólk félagsins um málefni villikatta í Kópavogi og hvernig Kópavogsbær getur komið til hjálpar. Samfylkingin í Kópavogi hefur, í sjálfu sér, ekki mótað sér sérstaka stefnu í hvað varðar villt dýr en við teljum að hugmyndafræði Villikatta sé áhugaverð og byggi á mannúðlegri aðferð við fækkun á dýrum sem ganga villt í bæjarfélaginu.
Við teljum að það að halda gæludýr sé mannréttindamál og allar reglur um gæludýrahald beri að líta á út frá mannúð og umburðarlyndi. Fulltrúi Samfylkingarinnar í Velferðarráði lagði nýlega fram tillögu um gæludýrahald í félagslegu húsnæði sem byggir á því að sömu reglur gildi fyrir íbúa í félagslegu húsnæði og aðra íbúa bæjarins:
„Leyfilegt verði að halda hund eða kött í félagslegum íbúðum í eigu Kópavogsbæjar. Leyfið verði háð eftirfarandi skilyrðum:
a) Sé um sameiginlegan inngang að ræða er hunda- og kattahald háð samþykki 2/ 3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang. (skv lögum um fjöleignarhús og reglum um katta- og hundahald í Kópavogi).
b) Hunda- og kattahald í félagslegum íbúðum með sérinngangi er leyfilegt.“
Þess má geta að allar líkur eru á að þessi tillaga verði að veruleika á næstu vikum.
Við teljum þörf á að fjölga sk. sleppigerðum þar sem fólk getur leyft hundum sínum að hlaupa lausir. Hundar hafa almennt þörf fyrir mikla hreyfingu auk þess sem nauðsynlegt er að bjóða þeim upp á samneyti við aðra hunda, án taums.
- Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum?
Við í Samfylkingunni í Kópavogi teljum að lög og reglur um velferð dýra eigi að vera í stöðugri endurskoðun og við viljum að vel sé hugsað um gæludýr í Kópavogi og gert ráð fyrir þeim í lífi bæjarbúa. Við teljum það skyldu allra að tilkynna það til yfirvalda ef fólk verður vart við illa meðferð á dýrum. Við viljum að Kópavogur sé samfélag sem lætur sér annt um velferð dýra og tekur hana alvarlega. Það er mikilvægt að dýrum sé gert kleift að sýna sitt eðlilega atferli, eins og unnt er og að öryggi þeirra og velferð sé tryggð með lögum, reglum og almennri umhyggju. Dýr auðga samfélag okkar og veita mörgum gleði og við þurfum að sýna þeim virðingu og veita þeim öryggi.
Kær kveðja
Bergljót Kristinsdóttir
Formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi
Svar frá Miðflokknum Fljótsdalshérðaði
Miðflokkurinn vill beita sér fyrir því að meðferð er varðar villiketti sé gert á mannúðlegan hátt líkt og lýst er í ykkar erindi.
Svar frá Sjálfstæðisflokknum í Garðabæ
Sveitarfélagið, þar sem Sjálfstæðismenn fara með meirihluta, hefur lagt sig fram um að íbúar og þeir sem leið eiga um sveitarfélagið geti lifað í góðri sátt með sín gæludýri og tekið samt tillit til umhverfisins.
Sveitarfélagið er aðili að heilbrigðiseftirlitinu með Kópavogi og Hafnafirði. Þar er starfandi dýraeftirlitsmaður sem sinnir kvörtununum og ábendingum varðandi hollustuhætti sem varða nábýli fólks og dýra.
Dýravelferð er aftur á móti málaflokkur Matvælastofnunar. Aðal málið er samt að sá sem verður var við eða ætlar að dýr sé sjúkt, sært, í sjálfheldu eða bjargarlaust að öðru leyti ber að veita því umönnun eftir föngum. Sé umráðamaður ekki til staðar skal tilkynna atvikið til lögreglu sem kallar til dýralækni meti hún það svo að ástæða sé til.
Skyldur sveitarfélagsins eru að grípa til aðgerða sé um hálfvillt eða villt dýr að ræða. Á það við ef þau eru í sjálfheldu eða bjargarlaus að öðru leyti. Hálfvilt dýr eru dýr sem ekki eru merkt í samræmi gildandi reglur og ganga laus. Starfsmenn heilbrigðiseftirlits og starfsmenn tækni og umhverfissviðs Garðabæjar finna lausn slíkra mála. Ef dýr er sjúkt eða sært er gripið strax til aðgerða af hálfu dýraeftirlitsmanns. Heilbrigðiseftirlitið er með góða aðkomu að dýrageymslu fyrir gæludýr ef vista þarf dýr í skamman tíma. Ábyrgðin er hjá umráðamanni dýrsins að gæta þess og hefja strax leit að því lendi það í því að týnast.
Gunnar Einarsson, bæjarstjóri
Svar frá Viðreisn í Hafnarfirði
Góðan daginn
Eftirfarandi er svar til stjórnar villikatta frá Viðreisn í Hafnarfirði.
Svar til stjórnar Villikatta
Viðreisn leggur áherslu á velferð dýra og að lög nr. 55 frá 2013 séu höfð að leiðarljósi í allri vinnu varðandi velferð dýra. Markmið með lögunum er skýrt en í 1. mgr stendur: „…stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Við teljum mikilvægt að heildstæðar lausnir séu skoðaðar varðandi dýrahald og hálfvillt dýr í sveitarfélaginu, Viðreisn í Hafnarfirði hefur til að mynda það á stefnuskránni að koma upp hundagerði í sveitarfélaginu.
Við teljum það áríðandi að í nánustu framtíð starfi sérstakur talsmaður dýra hér á landi og viljum skoða þær leiðir sem Svisslendingar og Austurríkismenn hafa farið. Á stefnuskrá okkar er faglega ráðinn umhverfisfulltrúi í Hafnarfirði og sjáum við fyrir okkur að slíkur fulltrúi fari einnig með dýravernd og verði í samstarfi við samtök í bænum er vinna að dýravernd og verði jafnframt í samstarfi við vistfræðinga, líffræðinga og dýralækna.
Það er mikilvægt að vinna að lausn hvað varðar föngun dýra og viljum við að hægt sé að koma þeim í öruggt skjól eða til eigenda sinna utan hefðbundins vinnutíma eftirlitsaðila. Eins teljum við að finna þurfi heildstæða lausn á skráningu og eftirliti hvort um er að ræða gæludýr eða villiketti. Við í Viðreisn teljum að velferð dýra eigi að sinna af alúð og af fagmennsku, að eftirliti og eftirfylgni sé viðhaft með það í huga að velferð dýra njóti vafans.
Svar Píratar Suðurnesjum
Góðan dag
Píratar á Suðurnesjum styðja klárlega við TNR aðgerðir gegn villiköttum sem eru mannúðlegar og skynsamar. Við erum ekki búin að skrifa niður stefnu um dýraverndarmál en Píratar í Reykjavík hafa samþykkt dýraverndarstefnu sem okkur á Suðurnesjum hugnast vel. Þegar að því kemur að vinna í þessari stefnu hér munum við taka mið af því sem höfuðborgarpíratar hafa sett sér. https://x.piratar.is/polity/102/document/373 og https://x.piratar.is/polity/102/document/374
kveðja,
Albert Svan
Ritari Pírata á Suðurnesjum
Svar B-lista Framsóknar-og félagshyggjufólks í Dalvíkurbyggð
Takk fyrir að senda inn þessa fyrirspurn og takk fyrir að vekja máls á ykkar góða sjálfboðaliðastarfi sem er sannarlega þarft og dýrmætt.
Í Dalvíkurbyggð eru stefnur sem unnið er eftir t.d. um búfjárhald, hundahald og svo þessi stefna um kattahald: https://www.dalvikurbyggd.is/static/files/Adalvefur/Reglugerdir/samthykkt-um-kattahald-i-dalvikurbyggd-2013.pdf
Það er á hendi Landbúnaðarráðs að fylgja þessum stefnum eftir, þær eru reglulega teknar til endurskoðunar og B-listinn styður þær.
Allir kettir í sveitarfélaginu eru skráðir og það er öflugt eftirlit með köttum af hendi almennings. Þannig er facebook notað til að vekja athygli á því ef sést köttur sem virðist í reiðuleysi og þannig hefst upp á eigandanum innan tíðar. Við erum líka heppin með það að sveitarfélagið er lítið og margir sem þekkja ketti og hunda nágranna sinna og láta sér annt um þá.
Við höfum ekki heyrt annað en að hverfandi sé að sjá vergangsdýr eða villt dýr í sveitarfélaginu en B-listinn ber dýravelferð fyrir brjósti og lætur sér annt um öll dýr og okkar blómlega landbúnaðarhérað.
Gangi ykkur vel í ykkar góða starfi.
F.h. B-listans í Dalvíkurbyggð
Katrín Sigurjónsdóttir.
Svar Miðflokkurinn í Reykjavík
Kæru stjórnendur Villikatta,
Við hjá Miðflokknum erum mjög fylgjandi allri dýravernd og dýrahjálp. Hið óeigingjarna starf sem félagið ykkar sinnir er ómetanlegt og við erum á þeirri skoðun að Reykjavíkurborg eigi að gera samning við félagið eins og fleiri hafa þegar gert. Munum við í Miðflokknum í Reykjavík beita okkur fyrir því að svo verði. Ég sem þetta skrifa fyrir hönd Miðflokksins er mikill dýravinur og hef nokkrum sinnum verið beðin um að taka þátt í starfsemi Villikatta. Hef fram að þessu ekki haft tíma til að vera með en lagt eins mikinn tíma og mér er unnt í að koma kisum í ógöngum til aðstoðar. Þegar kosninga-annríkið er yfirstaðið þá væri ég mikið til í að koma í heimsókn til ykkar, kynna mér starfsemina og spjalla.
Varðandi stefnu í dýravernd þá er málið það að flokkurinn er svo nýr að stefnuskráin ekki fullmótuð ennþá. Mikilvægi dýraverndar er óumdeilanlegt og mun kafli þar að lútandi verða settur í stefnu flokksins á landsvísu innan tíðar.
Þetta mál var tekið upp á fundi með frambjóðendum í morgun og ég beðin um að svara fyrir hönd framboðsins. Við hlökkum til samstarfs.
Kær kveðja,
Linda Jónsdóttir
- sæti Miðflokksins í Reykjavík.