Okkar innilegustu þakkir til kisusamfélagsins

Okkar innilegustu þakkir til kisusamfélagsins

Við erum alveg hreint orðlaus yfir viðbrögðunum við afmælinu okkar, 12. október síðastliðinn – en við ætlum þó að reyna að koma orðum að því. Hugmyndin um að halda sérstaklega upp á 10 ára starfsafmæli Villikatta kviknaði í vor og við byrjuðum á að fá Striga til að teikna sérstaka afmælisútgáfu af Villikattabolnum, sem er þriðji bolurinn sem hún hannar fyrir okkur. Okkur dreymdi um að halda viðburð, þar sem við gætum frætt almenning og okkar velunnara um starfið okkar og sýnt hvernig þeirra stuðningur hefur nýst í gegnum árin. Það var samt flókið, því ekki erum við með húsnæði til að taka á móti fólki.

Það var því himnasending þegar við hófum samstarf við Dýrheima, því þar var komið glæsilegt húsnæði og þaulvanir dýravinir í viðburðarhöldum. Þar með hófst mikill undirbúningur til að reyna að skapa sem mest fræðandi en einnig skemmtilega upplifun fyrir gesti og gangandi.

Þrátt fyrir mikinn spenning af okkar hálfu, þá var ómögulegt að segja til hvort fólk myndi koma. Við vonuðum það besta, en mætingin fór samt fram úr okkar björtustu vonum! Við erum ekki með tölu á fjöldanum sem kom, en áætlum að það hafi komið yfir 200 manns! Á staðnum vorum við einnig að selja bolina okkar og fólk gat styrkt okkur með frjálsum framlögum og við getum stolt sagt frá því að á rétt um 4 klukkutímum söfnuðust yfir 400.000 kr sem renna óskipt í sjúkrasjóð Villikatta!

Takk fyrir komuna. Takk fyrir áhugann, spjallið, stuðninginn og styrkina. Það var svo gott að finna samhuginn í fólki og við erum öll í sama liðinu að hugsa um hag kisanna okkar. Það sannaðist enn einu sinni hvað kisu- og dýraverndunarsamfélagið er magnað og fallegt!

Við viljum sérstaklega þakka Dýrheimum, fyrir að bjóða salinn sinn og kaffihús. Án þess hefði þessi viðburður aldrei orðið að veruleika. 

Við viljum þakka Arndísi Björgu og Olgu Perlu fyrir að kynna upphaf félagsins – og í raun fyrir allan þann grunn sem þær hafa lagt í félagið. Við stöndum jú á þeirra herðum.  Einnig viljum við þakka Theodóru, dýrahjúkrunarfræðingi Dýrheima og Hrund, dýralækni Gæludýraklíníkurinnar, fyrir ótrúlega áhugaverða og fræðandi fyrirlestra. 

Við viljum þakka Sætum Syndum fyrir glæsilega og gómsæta villikisuköku! Og við viljum þakka Kattavinafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Pírötum fyrir að færa okkur fallegar kveðjur og gjafir – við áttum alls ekki von á neinu slíku!  

Og að lokum viljum við þakka öllum sjálfboðaliðunum sem stóðu vaktina og þeim sem standa vaktina alla daga ársins, til að tryggja að okkar kisur skorti ekkert. Það er alltaf jafn magnað að sjá samstöðuna og ástríðuna sem knýr okkur áfram í okkar starfi. Þið eruð frábær! 

Það hefur orðið mikil vitundarvakning á meðal almennings þegar það kemur að kattahaldi og stöðu villikatta síðan félagið var stofnað, en þrátt fyrir ótrúlegan vöxt félagsins síðustu 10 árin og þau mörgu þrekvirki sem hafa verið unnin, þá eru ennþá ótal verkefni sem þarf að ráðast í. Á meðan óábyrgir eigendur halda áfram að fjöldaframleiða kettlinga og koma þeim á heimili eins snemma og hægt er, þá munum við halda áfram að sjá sömu vandamálin aftur og aftur. Það eru kettir sem enda á vergangi því þeir hættu að vera litlir og krúttlegir. Kettlingar sem fæðast úti því fressar og læður voru ekki tekin úr sambandi og fóru á flakk. Stressaðar kisur sem þurfa ný heimili vegna pissuvandamála. Heimili sem fara úr böndunum og enda með 30+ kisur í hörmulegum aðstæðum.  

Mikilvægt er að breyta lögum um velferð dýra og efla eftirlit með dýrahaldi til að tryggja velferð þeirra. Við þurfum að binda svo um hnútana að öll dýr geti átt gott líf og að ábyrgð dýraeiganda sé skýr, því dýrin eru hér vegna okkar og á okkar ábyrgð. Mikilvægt er að fólk sem brýtur á dýrum sæti ábyrgð.

Já það er víst að litla félagið okkar hefur vaxið gríðarlega síðustu 10 árin – og við erum hvergi nærri hætt!

Takk fyrir stuðninginn og takk fyrir okkur!

Hvenær eru kettlingar tilbúnir á heimili?

Hvenær eru kettlingar tilbúnir á heimili?

Mjög algeng mýta um kattahald er að ef fólk ætlar að fá sér kött þá sé best að taka eins ungan kettling og hægt er, og að þeir séu tilbúnir fyrir ný heimili um leið og þeir hafa lært á kassann og eru farnir að borða mat í föstu formi. Þetta heyrist líka í samhengi við að fá kött inn á barnaheimili eða þar sem annar köttur er fyrir – því er haldið fram að því yngri sem kettlingurinn er, því auðveldara er að aðlaga hann að heimilinu.

Samkvæmt reglugerðum um dýravelferð þá má ekki aðskilja kettlinga frá mömmu sinni fyrir 8 vikna aldur. Það er hins vegar algjört lágmark og flestir sérfræðingar eru sammála um að það sé betra fyrir kettlinga að vera með móður sinni og systkinum fram að allt að 12-14 vikna aldri.

Rannsóknir sýna að því yngri sem kettlingar eru þegar þeir eru aðskildir frá móður sinni, því meiri líkur eru á því að þeir þrói með sér stress einkenni og hegðunarvandamál, sem gæti komið fram sem vandamál við klósettvenjur (s.s. pissa og/eða kúka á aðra staði en í kattasandinn) eða árásarhneigð gagnvart manneskjum og öðrum dýrum.

Úti í náttúrunni er algengt að kettlingar hætti á spena við 4-8 vikna aldur, en þeir fylgja samt sem áður móður sinni fram að 16-18 vikna aldur. Þessa fyrstu 4 mánuði lífsins læra þeir mikilvæga félagslega þætti af móður sinni og systkinum.

Kettlingar sem eru aðskildir frá móður sinni fyrir 8 vikna aldur eru mikið líklegri til að vera árásargjarnir gagnvart ókunnugum, en kettlingar sem eru aðskildir við 12-13 vikna aldur. Kettlingar sem fara á ný heimili við 14 vikna aldur eða seinna eru mun ólíklegri til að vera árásargjarnir gagnvart ókunnugu fólki eða öðrum köttum. Önnur algeng hegðun hjá köttum sem voru aðskildir snemma frá móður sinni (fyrir 12 vikna aldur) er þrálát sogþörf (t.d. teppi eða flíkur), nartþörf (t.d. að naga og éta dót, plast, plöntur, snúrur o.s.frv.) og óhófleg feldþrif sem gætu endað með skallablettum eða sárum.

Í fullkomnum heimi hefðu svona hegðunarvandamál engin áhrif á framtíð þessara kettlinga og eigendur þeirra, en því miður er það ekki raunin. Ef kisa er gjörn á að naga og éta alls konar hluti á heimilinu aukast líkurnar verulega á háum dýralæknakostnaði, þar sem aðskotahlutir festast í maga og görnum eða kötturinn verður fyrir eitrunaráhrifum. Sömuleiðis er þreytandi og erfitt að vera með kött sem bítur allt í einu í miðju dekri, að því virðist upp úr þurru, og þeim ekki treystandi t.d. að vera í kringum börn eða önnur gæludýr. Hvað þá að koma endurtekið að hlandblautri sæng eða kúk í skó.

Þessar erfiðu kisur enda oft hjá okkur á einn eða annan hátt. Enn eru mjög margir sem telja ekkert annað vera í stöðunni en að láta aflífa greyið kisuna og við höfum tekið til okkar töluvert margar kisur sem voru hársbreidd frá aflífun. Aðrir hleypa kisunum út og telja að þær spjari sig betur í náttúrunni (sem er ekki raunin þegar köttur hefur verið alinn upp á heimili) og við endum á að bjarga hræddri og umkomulausri kisu inn af götunni.

Hafðu eftirfarandi í huga þegar þú ákveður að taka að þér kettling:

🐾 Hvernig eru augun á litin á kettlingnum? Kettlingar fæðast með blá augu og fá ekki sinn rétta augnlit fyrr en við 7-8 vikna aldur og því eru bláeygðir kettlingar of ungir til að fara frá móður!

🐾 Færðu kettlinginn bólusettan, örmerktan og ormahreinsaðan? Kettlingur ætti að fá fyrstu bólusetningu við 8-12 vikna aldur og aðra bólusetningu 3-4 vikum seinna.

🐾 Færðu heilsufarsbók með kettlingnum? Dýralæknar skrá bólusetningar, ormahreinsanir og aðrar athugasemdir við kettlingaskoðun í heilsufarsbók sem kettlingurinn fær með sér heim. Þetta vottar fyrir að kettlingurinn hafi hlotið skoðun og sé bólusettur.

🐾 Liggur seljanda á að koma kettlingnum á heimili? Oft er það merki um að seljandi hafi ekki hag kettlingsins í huga, heldur sé að reyna að losna undan fóður- og kattasandskostnaði.

🐾 Kisur geta orðið 18-20 ára gamlar (sumar verða jafnvel eldri en það) og því er þetta langtíma skuldbinding að taka að sér kött.

🐾 Það er kostnaðarsamt að vera með gæludýr – en það er mikið dýrara að eiga vansælann og stressaðan kött, bæði veraldlega og tilfinningalega, og því borgar það sig að bíða í nokkrar vikur í viðbót til að leyfa kettlingnum að fá það uppeldi sem hann þarf hjá mömmu og systkinum 💖

Allir kettlingar sem fá heimili í gegnum Villiketti eru örmerktir, bólusettir, ormahreinsaðir og geldir eða fá með sér inneign í geldingu. En svo mælum við líka svo innilega með að bjóða fullorðnum ketti heimili – það er bæði auðveldara að sjá persónuleikann þeirra, þeir eru oft rólegri og kisurnar okkar eru svo þakklátar fyrir að fá loksins öruggt skjól 🥰

Minningardagur sumarlandsbúa

Minningardagur sumarlandsbúa

Í dag er Rainbow Bridge Rememberance Day og við minnumst þeirra sem hafa farið yfir regnbogabrúnna 🌈 Það er því miður hluti af okkar starfi að kveðja kisur eins og það er að taka á móti þeim – og í öllum tilfellum getum við að minnsta kosti glaðst yfir því að þær kisur sem falla frá fengu að upplifa hlýjuna innan um mannfólkið og deyja í öruggu umhverfi. Í ár höfum við fengið allan skalann, frá andvana fæddum kettlingum að öldungum sem hreinlega kláruðu sinn lífskraft.

Í tilefni dagsins þá viljum við segja ykkur söguna af Jennýju. Við vonum að Jenný okkar vekji alla til umhugsunar þegar það kemur að því hvort það sé betra að gelda kettina sína eða ekki.

Jenný var tæplega 5 ára gömul og kom til okkar með 8-9 vikna gamla kettlinga. Hún fékk yndislegt fósturheimili sem aðstoðaði hana við að koma kettlingunum á legg og þegar kettlingarnir voru tilbúnir fóru þeir á sín framtíðarheimili. En strax morguninn eftir að kettlingarnir fóru á heimili beið fóstrunnar skelfileg sjón – Jenný lá dáin á gólfinu 💔

Það hafði ekkert gefið til kynna að Jenný hafði verið veik, en fóstran hafði fundið fyrir einhverju skrítnu við magasvæðið daginn áður og hafði ætlað með hana í skoðun strax eftir helgi. Þar sem Jenný dó svo skyndilega þá vildum við frekari svör varðandi dánarorsök og óskuðum eftir krufningu.

Þegar við svo loksins fengum niðurstöðuna, kramdi það algjörlega hjörtun okkar. Jenný var kettlingafull, með 8 fóstur og gengin u.þ.b. mánuð! Ógeldur fress hefur sennilega náð henni örfáum dögum áður en hún kom til okkar og líkaminn hennar einfaldlega gafst upp við álagið.

Við erum ekki að reyna að vera leiðinleg þegar við biðjum ykkur um að gelda kisurnar ykkar og sýna ábyrgð í verki! Við sjáum það reglulega hvað gerist þegar kettlingar verða kettlingafullir, þegar læður eignast got eftir got eftir got. Þegar kettlingar fæðast úti, nærast illa og koma veik til okkar. Þegar heimili fer úr því að eiga 5 kisur, í að eiga 15 kisur, í að eiga 30 kisur á innan við ári – því kisurnar voru aldrei geldar. Þegar kettlingar eru teknir of snemma frá móður sinni og systkinum.

Það erum við sem þurfum að takast á við afleiðingar af slæmum ákvörðunum. Við tökum að okkur kisurnar þegar allt fer úr böndunum, við tökum læðurnar þegar það hentar ekki lengur að láta þær eignast kettlinga, við tökum stressuðu eða árásargjörnu kisurnar sem misstu af uppeldistímabilinu hjá móður og systkinum.

Við vonum að þið hugsið til Jennýjar þegar þið hugsið hvað það væri nú krúttlegt að leyfa Snúllu litlu að eignast eitt got í viðbót. Eða þegar þið sjáið sama fólkið auglýsa kettlinga trekk í trekk.

Takk kærlega fyrir að gefa ykkur tíma til að lesa þennan pistil 💖 Ef þið viljið styrkja okkur sem tökum við öllum kisum í vanda, þá er hægt að leggja inn á sjúkrasjóðinn okkar: kt 710314-1790, rkn. 0111-26-73030 eða kaupa styrk á https://www.villikettir.is/…/styrkja-villiketti-um…/