fbpx

Svar frá Kvennahreyfingunni

Kvennahreyfingin er nýstofnað stjórnmálaafl og því höfum við ekki haft ráðrúm til þess að full móta stefnu hreyfingarinnar í öllum mikilvægum málaflokkum. Við ákváðum að setja jafnréttismál mennskra borgarbúa á oddinn í þessari kosningabaráttu og miðast aðgerðaráætlun okkar við það.

Dýravelferð er okkur þó mikilvæg og við munum móta okkur skýra stefnu í þeim málum að þessari kosningabaráttu lokinni. Það munum við gera í samráði við sérfræðinga og félagasamtök eins og Villiketti.

Það er ljóst að dýraathvarf vantar fyrir týnd dýr og einnig þarf að stórbæta útivistarsvæði fyrir hunda. Borgin ætti líka að leggja sitt af mörkum í vinnunni við að bæta líf villi- og vergangskatta í Reykjavík.

Kær kveðja,

Svala Hjörleifsdóttir,
frambjóðandi Kvennahreyfingarinnar

Svar frá Vinum Mosfellsbæjar

Eftir því við best vitum er vinnureglan sú að hálfu Mosfellsbæjar að útigangsdýr sem ekki hefur tekist
að bera kennsl á, og koma aftur til eigenda sinna, verið lógað.

Svör Vina Mosfellsbæjar eru þessi:
1) Við höfum ekki mótað okkur stefnu gagnvart villiköttum og útigangsköttum. Komist fulltrúar okkar í bæjarstjórn erum við tilbúin til þess að skoða og kynna okkur reynslu Hafnfirðinga af samningi við Villiketti.
2) Nei, við höfum ekki mótað okkur aðra stefnu en þá að vakta og virða lög um dýravelferð nr. 55/2013.

Kveðja,
f.h. Vina Mosfellsbæjar
Stefán Ómar Jónsson

Svar Alþýðufylkingarinnar í Reykjavík

1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?
Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í málefnum gæludýra, vergangsdýra eða villtra dýra.
2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?
 Alþýðufylkingin hefur ekki mótað sér almenna stefnu í dýravelferðarmálum, fyrir utan andstöðu við verksmiðjubúskap og harða andstöðu við að náttúrunni sé spillt að óþörfu.
Kv. Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar

Svar Pírata í Reykjavík

1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?
Við erum með tvær stefnur í Reykjavík er lúta að dýravernd, önnur er stefna um dýravelferð og hin er stefna um stofnun dýraþjónustu.
Dýravelferðarstefnan tekur mið að Stefnu Reykjavíkurborgar um líffræðilegan fjölbreytileika ásamt því að við viljum gera betur en svo:
  1. Hundasvæði/gerði a) Hundasvæði/gerði þurfa að uppfylla lágmarksstærð og öryggiskröfur. Þeim verði fjölgað og markvisst hugað að viðhaldi. b) Hundagerði skulu vera vönduð og innihalda leiktæki og aðra afþreyingu. c) Í skipulagi á hverfum skuli gera ráð fyrir hundasvæðum/gerðum – huga þarf að lýsingu og aðbúnaði fyrir hundaeigendur til að ganga vel um svæðið sjálfur.
  2. Stefnt skuli að því að bæta líf og velferð útigangs- og villikatta í Reykjavík í samstarfi við félagasamtök sem þessu sinna nú. Búsvæði útigangskatta verði kortlögð og aðbúnaður katta innan borgarmarka bættur og reynt að stemma stigu við fjölgun þeirra með aðferð TNR (trap, neuter. release).
  3. Dýraathvarf verði opnað fyrir týnd og villt dýr með sólarhringsvakt. Í samráði við félagasamtök sem taka að sér þessi dýr eins og staðan er núna.
  4. Meindýravarnir endurskoðaðar (sjá meðfylgjandi árskýrslu frá Meindýraeyði)
  5. a) Veiði á ref verði hætt – skoða með tilliti til gildandi stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika. b) Minnka veiði á mávum og öðrum fuglum sem eru skotnir með tilliti til stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika. c) Ráðist verði í átaksverkefni varðandi kanínur í borginni þar sem íbúar eru hvattir til þess að sleppa ekki kanínum lausum. Ekki verði heimilt að veiða kanínu – heldur verði þær fangaðar og þeim fundið nýtt heimili/griðastaður. d) Selur verður friðaður. Ekki verði heimilt að veiða sel innan borgarmarkanna. Markvisst skuli unnið að fræðslu og aðgerðum til verndunar á sel í samstarfi við Selastofnun Íslands og Húsadýragarðinn.

Við viljum einnig stofna Dýraþjónustu sem mun sjá um öll mál er varða dýr bæði gæludýr og villt dýr með því markmiði að efla eftirlit og þjónustu við gæludýraeigendur og dýr:

  1. Stofnuð verði stjórnsýslueiningin Dýraþjónusta Reykjavíkurborgar.
  2. Dýraþjónustan beri ábyrgð á þjónustu og samskiptum við gæludýraeigendur, leyfisveitingum og framfylgd samþykkta borgarinnar um gæludýrahald.
  3. Verkefni Hundaeftirlitsins í Reykjavík og verkefni meindýravarna verði færð alfarið undir Dýraþjónustuna, sem og öll önnur verkefni er snúa að dýrum og dýravelferð.
  4. Þjónustuferlar borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði samhliða yfirfærslu til Dýraþjónustunnar alfarið rafvæddir og endurskoðaðir út frá aðferðafræði notendamiðaðrar hönnunar.
  5. Borgin hætti að skrá dýr í gagnagrunna hjá sér og nýti sér þess í stað aðra opinbera gagnagrunna sem fyrir eru, sbr. Dýraauðkenni.
  6. Trygging gegn tjóni þriðja aðila skuli ekki vera bundin tryggingu sem sveitarfélagið býður upp á heldur skuli hún vera valfrjáls.
  7. Samþykktir og gjaldskrár borgarinnar sem snúa að dýrahaldi verði endurskoðaðar í takti við breytt fyrirkomulag. Stefnt skuli að því að samþykktir verði felldar úr gildi eða styttar niður í allra einföldustu grunnatriði.
  8. Jafnframt verði önnur stefnumörkun borgarinnar og stofnanna hennar sem varðar dýrahald tekin til gagngerrar skoðunar, svo sem svigrúm leigjenda í félagslegu húsnæði til dýrahalds.
  9. Víðtækt samráð verði haft við gæludýraeigendur sem og aðra hagsmunaaðila við útfærslu þessa nýja fyrirkomulags.
2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?
 Já það höfum við gert núna í Reykjavík eins og sést á fyrra svari mínu og það er einnig í vinnslu dýravelferðarstefna á landsvísu sem mun vonandi klárast og vera samþykkt innan skamms.
Kær kveðja Valgerður 5. sæti Pírata í Reykjavík.

Stjórn Villikatta 2018-2019

Aðalfundur Villikatta var haldinn miðvikudaginn 9.5.

Almenn aðalfundastörf voru haldin, og kosið var í stjórn og varastjórn til 1 árs.

Stjórnina skipa:
Arndís Björg Sigurgeirsdóttir
Arndís Kjartansdóttir
Áslaug Eyfjörð
Fjóla Haraldsdóttir
R. Gróa Hafsteinsdóttir

Varastjórn:
Olga Perla Nielsen
Hallbera Guðmundsdóttir
Samantha Miles
Sigrún Jónsdóttir
Bjarney Ingimarsdóttir

Aðalfundur Villikatta 9.5.2018

Aðalfundur Dýraverndunarfélagsins VILLIKATTA verður haldinn miðvikudaginn 9. maí kl. 17:00 að Suðurgötu 14, Hafnarfirði 3. hæð (gamla skattstofan).
Almenn aðalfundarstörf, kosning stjórnar og opnar umræður. Atkvæðarétt á aðalfundi hafa þeir sem greitt hafa félagsgjöld í félagið í 2 ár.
Fundur hefst kl 17:00Tillögur að lagabreytingum verða að berast stjórninni viku fyrir aðalfund og verða tillögurnar síðan bornar upp á aðalfundi. Einnig skulu framboð til stjórnar berast núgildandi stjórn viku fyrir boðaðan aðalfund. Hægt er að senda á netfangið: villikettir@villikettir.is

Fullgildir meðlimir geta ekki boðið sig fram á fysta aðalfundi eftir að hafa gerst fullgildur meðlimur heldur á næsta aðalfundi þar eftir.
Nýjir meðlimir geta ekki haft áhrif á eða komið með tillögur að lagabreytingum fyrr en á öðrum aðalfundi eftir fulla meðlimagildingu. Kjörgengi til stjórnar eru meðlimir sem að hafa haft fulla meðlimagildingu í 2 ár, nema með samþykki sitjandi stjórnar.
Lagabreytingar þurfa samþykki 2/3 hluta atkvæða. Allar aðrar samþykktir á aðalfundi verða að hljóta einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.

Við vekjum athygli á því að aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi.

Lög félagsins:
https://www.villikettir.is/wp-content/uploads/2015/11/l%C3%B6gf%C3%A9lagsinsVillikettir-2017.pdf

Ertu Villingur ?

Villikettir eru með til sölu fjölnota taupoka með áletruninni „Ég er villingur“ – allur ágóði rennur til styrktar félaginu Villikettir.

Verð er 2000 kr.

Hægt er að kaupa pokana í verslun Máls og Menningar við Laugarveg, Versluninni Iðu Zimsen við Vesturgötu í Reykjavík, og verslun Systra og Maka við Síðumúla í Reykjavík.   Einnig er hægt að panta taupokann hér: Smelltu til að panta   eða á http://www.villikettir.tk  Þá þarf að millifæra greiðslu fyrir pokanum og sækja hann á einum af dreifingarstöðum Villikatta.   Eins er möguleiki á að fá taupokann sendan í pósti ef kaupandi er tilbúinn að borga fyrir póstburðargjaldið.

Gleðilegt ár 2017

Árið 2016 var mjög annasamt og viðburðaríkt hjá félaginu VILLIKETTIR. Á milli 300-400 kettlingum og eldri kisum var fundið nýtt heimili í gegnum okkur. Stór hluti af þessum kisum eða 75, voru kisur sem við björguðum úr afleitum aðstæðum af heimili þar sem bjuggu 100 kettir og 6 hundar. Aðkoma okkar að þessu stóra 100 katta máli tók mikinn hluta af tíma, orku og fjármunum félagsins og enn erum við tengd þessu máli með nokkrar kisur á okkar vegum og 25 kisur sem eftir eru á heimilinu en við tókum að okkur að láta gelda svo fjölgunin stoppaði.
Þegar svona stór mál koma upp þá finnum við svo vel hvað okkur vantar húsnæði – afdrep til að taka við svona miklum fjölda katta þegar neyðaraðstæður koma upp. Það er stóri draumurinn okkar fyrir næstu ár að eignast okkar eigið húsnæði eða afdrep til að geta komið fleiri kisum til hjálpar.
Við þurftum að kæra nokkur mál til MAST á árinu 2016 sem vörðuðu illa meðferð á kisum, við lærðum á því að úrræði til hjálpar dýrum í þessum aðstæðum voru af mjög skornum skammti hjá MAST og í raun aðeins fá sjálfboðaliðasamtök sem geta brugðist við til bjargar kisum sem búa við slæmar aðstæður og þá eru þessi samtök alveg á eigin vegum hvað varðar fjármagn og húsnæði. Við vonum að á næstu árum verði einhverjar breytingar á dýravernd á Íslandi og betur verði hugað að velferð þeirra og einhver úrræði í boði önnur en aflífun dýranna. Eftirlit þarf líka að auka og viðurlög við illri meðferð á dýrum.
Við höfum haldið áfram að TNR’a villikisurnar (Fanga-Gelda-Skila) til að reyna að bæta lífsgæði þeirra og stemma stigum við fjölgun dýranna. Við gefum villikisum á fjölmörgum stöðum á landinu og erum stöðugt að fá til liðs við okkur nýtt fólk víðsvegar um landið sem vill taka þátt í starfi VILLIKATTA.
Á árinu leituðum við til stærstu sveitarfélaga landsins til að gera við okkur samstarfssamning um velferð og umsjón villikatta, við fengum jákvæð viðbrögð víða og Hafnarfjarðarbær ákvað fyrstur af þessum sveitarfélögum að gera við okkur tilraunasamning til 1 árs. Við munum halda áfram að vinna með sveitarfélögunum að málefnum villikatta til að bæta velferð þeirra og aðbúnað.
Við höfum fengið fjölmarga sjálfboðaliða í hópinn á þessu ári, mikið af frábæru fólki sem hefur lagt fram tíma sinn til að gera líf villikatta betra á Íslandi. Við erum innilega þakklát fyrir góðvild fólks í garð villikatta, án ykkar þá væri þetta ekki mögulegt
Og ekki má gleyma öllum dýralæknunum sem hafa lagt okkur lið, gefið vinnu sína og tíma til að bæta líf kattanna – þeir hafa verið okkur ómissandi á árinu og bjargað mörgum kisulífum. TakkDýralæknamiðstöðin Grafarholti, Dýralæknastofa Reykjavíkur, Dýraspítalinn Í Víðidal Ehf,Dýralæknastofa Suðurnesja og Dýraspítalinn Garðabæ.
Og svo eru það þið kæru dýravinir  þið hafið lagt okkur lið á svo marga vegu, með fjárstyrkjum, matargjöfum, teppum og öðru dóti sem hefur nýst kisunum, fallegum orðum og hvatningu til að halda áfram. Við erum ykkur endalaust þakklát, takk fyrir stuðninginn

Gleðilegt ár kæru vinir, við hjá VILLIKÖTTUM munum halda áfram á næsta ári að vinna að bættum hagsmunum villikatta á Íslandi. Við vonum að þið verðið með okkur á þeirri leið og takið þátt í að búa vegalausum kisum betra líf

gledilegt2017