fbpx

Hveragerði gerir samning við Villiketti

Hveragerðisbær hefur undirritað samning við Villiketti um að hlúa að villi og vergangsköttum í sveitafélaginu.  Félagið mun sjá um að fanga – gelda – skila (TNR) öllum villiköttum sem nást í sveitafélaginu, hlúa svo að þeim með matargjöfum og skjóli.  Einnig mun félagið taka inn alla kettlinga sem finnast og nást og finna þeim heimili.  Félagið er líka að taka inn vergangsketti sem finnast og þarfnast hjálpar.

Hveragerðisbær er 5. sveitafélagið sem gerir samning við Villiketti 🙂

Myndin er tekin við undirritun samnings, frá vinstri:  Aldís bæjarstjóri Hveragerðis, Arndís Björg formaður Villikatta, Ása Nanna sjálfboðaliði á Suðurlandi og Áslaug stjórnarkona í Villiköttum.

16. október 2018 – Alþjóðlegur dagur villikatta, Vefverslun opnar :)

16. október 2018 – Alþjóðlegur dagur villikatta, Vefverslun opnar :)

Þriðjudaginn 16. október þá fögnum við Alþjóðlegum degi Villikatta – Global Cat day sem áður var kallaður National Feral Cat Day.   Þessi dagur er haldinn hátíðlegur til að minna okkur á að hlúa að villi- og vergangskisum um allan heim.  Í tilefni dagsins þá hefur félagið Villikettir opnað vefverslun sem selur ýmsar vörur sem eru framleiddar af félaginu í samstarfi við Maríu Kristu Hreiðarsdóttur, hönnuð og rekstrarstjóra Kristukots í Hafnarfirði 🙂

Vefverslunin er lítil og krúttleg og hefur upp á að bjóða ýmsar vörur sem minna okkur á villingana okkar sem við erum að bjarga daglega.  Til að byrja með erum við með til sölu Jólamerkimiða með fallegum myndum af kisum sem við höfum bjargað, og eins samstæðuspil með fallegum kisumyndum af skjólstæðingum okkar.   Einnig bjóðum við upp á gjafabréf sem hægt er að lauma í jólapakkann til ástvina sem eiga allt <3   og svo er hægt að styrkja félagið með föstum upphæðum á einfaldan hátt í gegnum vefverslunina.

Fleiri vörur munu bætast við á næstu vikum s.s. bolir, taupokar, óróar og fleira skemmtilegt 🙂

Allur ágóði rennur til félagsins Villikatta og fer í að reka félagið, hlúa að villi- og vergansköttum, greiða lækniskostnað, mat og fleira.   Allir fjármunir sem safnast fara beint til villikattanna þar sem starfið er eingöngu unnið í sjálfboðavinnu.

Smelltu til að skoða vefverslunina.  Það er hægt að velja um tvær greiðsluleiðir,  með greiðslukortum eða millifærslu.  Eins er hægt að velja um tvær leiðir til að fá vöruna, pósti eða sækja í verslun Systra og Maka við Síðumúla 21 í Reykjavík – þá þarf að sýna greiðslukvittun til að fá vöruna afhenta.

https://www.villikettir.is/shop/

Svar frá Bæjarmálafélagið Áfram Árborg

Bæjarmálafélagið Áfram Árborg hefur mikinn áhuga á aðbúnaði dýra og dýravernd. Enda annar hver frambjóðandi á listanum dýraeigandi ;). Það verður samt að segjast eins og er að við erum ekki beinlínis komin með dýraverndunarstefnu en styðjumst við lög um velferð dýra. Í markmiðakafla þeirra segir: ,,Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“
Margt hefur verið vel gert í Árborg á þessu sviði til dæmis hundasleppisvæðið sem er mikið notað. En það þarf að yfirfara reglur Árborgar sem gilda um dýrahald og dýraeftirlit því margir hafa lýst athugasemdum við þær. Bæjarmálafélagið Áfram Árborg mun halda áfram félagsstarfi eftir kosningar og viljum gjarnan fá aðstoð við mótun dýraverndunarstefnu og bjóðum áhugasama velkomna að þeirri vinnu.

Svar frá Héraðslistanum

Sæl verið þið.

Svörin við spurningum sem þið beinduð til okkar.

1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og
villt dýr í sveitafélaginu ?

Héraðslistinn leggur áherslu á farið sé í einu og öllu eftir
lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, sem og þeim reglugerðum sem á
þeim lögum byggja, þ.m.t. nýleg reglugerð um velferð gæludýra
frá árinu 2016. Sömuleiðis þurfa allir hlutaðeigandi aðilar að
fara eftir og virða samþykktir sveitarfélagsins um dýrahald.

2. Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum
?

Héraðslistinn hefur ekki mótað sér sérstaka stefnu í
dýravelferðarmálum aðra en þá að farið sé eftir þeim lögum og
reglum sem um málaflokkinn gilda.

Við teljum að Villikettir hafi unnið mjög þarft og gott starf með
því að fanga villiketti og sinna þeim. Vonandi að hægt verði að
halda því starfi áfram.

Bestu kveðjur,

Frambjóðendur Héraðslista

Svar frá Heimaey

Sæl og kærar þakkir fyrir bréfið, heimsóknina og gott spjall.
Fyrir Heimaey er nýstofnað bæjarmálafélag og höfum því ekki enn fullmótað okkur stefnu í þessum málaflokki. Okkur er þó umhugað um velferð dýra, bæði gæludýra sem og þeirra sem lifa villt og á vergangi ásamt því að viljum að meðferð á þeim sé mannúðleg.

Við teljum það góða starf sem þið eruð að vinna að varðandi vergangsdýr sé mikilvægt fyrir bæinn okkar og að leitast verði eftir því að styðja við ykkur eftir fremsta megni þannig að starfið geti orðið markvissara. Jafnframt þyrfti að finna lausn á húsnæðismálum fyrir ykkur.
Við teljum að koma þurfi þessum málum í ákveðin farveg m.a. með því að endurskoða lög og reglur um hunda- og kattahald í Vestmannaeyjum. Það yrði framfaraskref fyrir bæinn okkar ef gerður yrði samningur við félagssamtök eins og Villiketti líkt og önnur sveitafélög hafa verið að gera

Ég tel brýnt að í bæjarfélaginu okkar sé starfsmaður sem sinnir dýraeftirliti, að það sé athvarf fyrir týnd dýr og að hugað sé að útivistasvæðinu okkar þar sem geta gengið laus. Við teljum það skyldu allra að tilkynna það til yfirvalda ef fólk verður vart við illa meðferð á dýrum. Dýraeigendum þarf að sýna aðhald og tryggja að þeir sinni skyldum sínum í dýrahaldi.

Við hjá X-H vonum svo sannarlega að við munum eiga í góðum samskiptum við ykkur að loknum kosningum.
Kær kveðja
Fyrir Heimaey, Guðný Halldórsdóttir

Svar Sjálfstæðisflokkur Fljótsdalshérðas

Sæl

Takk fyrir fyrirspurnina.

Við höfum kynnt okkur niðurstöður við notkun Fanga-Gelda-Skila aðferðarinnar í Noregi t.d. og finnst þetta mjög áhugaverð lausn á vandamáli sem að við metum sem tvíþætt þar sem að fjölgun villikatta er bæði dýravelferðarmál sem og vandamál íbúa sem að búa við ónæði vegna mikils fjölda katta. Við hefðum mikinn áhuga á að ræða við forsvarsmenn ykkar samtaka um hvort að hægt væri að finna samstarfsflöt þar sem að við teljum það mikinn kost að fólk sem að hefur brennandi áhuga á velferð kattanna vinni einmitt í því að bæta hag þeirra.

Almennt varðandi dýravelferð í sveitarfélaginu höfum við sérstaklega rætt okkar á milli velferð villtra dýra og mótun verklagsreglna ef villt dýr finnast slösuð eða veik enda er það á ábyrgð sveitarfélagsins að bregðast við með skjótum hætti og ýmist koma til bjargar eða sjá til mannúðlegrar aflífunar ef þess þarf. Varðandi vergangsketti mundum við gjarnan vilja vera í samstarfi við félagasamtök eins og Villiketti eða Dýrahjálp og reyna að finna þeim sem að möguleiki er að bjarga góð heimili.

Við viljum að vel sé farið með dýr í okkar sveitarfélagi og höfum kynnt okkur aðbúnaðarreglugerðir þær sem að eiga sér stoð í Dýravelferðarlögum og höfum haft þær reglugerðir til viðmiðunar við mótun samþykkta um gæludýrahald. Við höfum verið í mjög góðu samstarfi við heilbrigðiseftirlitið varðandi hunda- og kattahald á Fljótsdalshéraði og við stefnum á að opna útivistarsvæði fyrir hunda í lausagöngu með eigendum sínum á þessu kjörtímabili en það hefur sárlega vantað.

Við vonum að við höfum náð að svara ykkar helstu spurningum og hlökkum til að eiga með ykkur fund á komandi kjörtímabili.

Svar Sjálfstæðisflokkurinn Vestmannaeyjum

Sæl verið þið og takk fyrir gott spjall og kynningu á félaginu.

Við í framboðinu erum sammála um að það er þarft og gott starf sem þið vinnið. Við höfum ekki formlega dýraverndunarstefnu, en förum að lögum og bæjarmálasamþykktum sem varða velferð dýra. Við höfum áhuga á að skoða betur hvað bærinn getur gert til að tryggja velferð dýra og við erum ánægð með það starf sem þið eruð að vinna og erum opin fyrir samstarfi og samræðum um dýravelferð.

 Helga Kristín Kolbeins

frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum

Svar Samfylkingin í Hafnarfirði

Samfylkingin í Hafnarfirði leggur áherslu á dýravelferð og vill skoða enn betur með hvaða hætti bærinn geti betur tryggt velferð dýra. Við höfum ekki formlega dýraverndunarstefnu en förum að lögum sem eiga við um velferð dýra. Við höfum hins vegar áhuga á að setja okkur slíka stefnu og munum taka það upp á flokksgrundvelli við fyrsta tækifæri.

Af gefnu tilefni má nefna að þegar ný dýraverndunarlög voru til umfjöllunar fyrr á þessu ári gerði okkar fulltrúi í Umhverfis- og framkvæmdaráði athugasemdir við eldri lög og lét gera á þeim ákveðnar breytingar. Þær breytingar vörðuðu einkum að tekin yrðu út ákvæði um aflífun villtra katta innan ákveðinna tímamarka. Um það ferli má lesa í fundargerðum bæjarins.

Kveðja frá Samfylkingunni í Hafnarfirði

Jón Grétar Þórsson formaður

Svar Framsókn og óháðir í Árborg

  1. Hver er stefna ykkar flokks hvað varðar gæludýr, vergangsdýr og villt dýr í sveitafélaginu ?

Stefna okkar er að fara eftir dýraverndunarlögum og þeim reglum sem gilda um dýrahald í sveitarfélaginu.

     2.Er flokkurinn búinn að móta sér stefnu í dýravelferðarmálum ?

Já, að fara eftir þeim lögum og reglum sem gilda.

Kv,
Framsókn og óháðir í Árborg.

Helgi S Haraldsson.