Þá er komið að næsta stjórnmálaflokki til að svara spurningum okkar sem varða málefni sem brenna á okkar félagi, en dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.
Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.
Sjöundi stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar er Vinstrihreyfingin, grænt framboð.
Er flokkurinn með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum?
Flokkurinn er ekki með stefnu er varðar dýravelferð hins vegar er hugmyndafræði dýravelferðar að finna í einhverjum af stefnum okkar eins og til dæmis þegar kemur að hvalveiðum, sem við viljum banna, sjókvíaeldi sem við viljum að sé bannað með öllu 2030 og hvað varðar landbúnaðarstefnu flokksins þar sem segir að “landbúnaður á Íslandi á að verða kolefnishlutlaus, stundaður í sátt við náttúruna með sjálfbæra nýtingu lands og velferð dýra í forgrunni” og í stefnu um loftslagsvá og náttúru þar sem segir:
“Mikilvægt er að heildarendurskoðun löggjafar um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og villtra spendýra nái fram að ganga og stækka þarf griðasvæði sjávarspendýra í kringum landið.”
Flokkurinn hefur ályktað mjög mikið um dýravelferð til dæmi um hvalveiðar, blóðmerahald, eflingu dýralæknaþjónustu og almennt um dýravelferð:
“Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, haldinn á Flúðum 26.-27. ágúst 2023, fagnar áherslubreytingum og aukinni umræðu í samfélaginu um velferð dýra. Fundurinn hvetur matvælaráðherra til að taka á þeim vanda sem snýr að dýravelferðareftirliti Matvælastofnunar (MAST) og efla það þannig að farið verði eftir öllum reglugerðum um velferð búfjár. Fundurinn telur að atvinnustarfsemi sem ekki getur staðist kröfur um velferð dýra eigi sér ekki framtíð á Íslandi. Því telur fundurinn brýnt að innleidd verði ný tækni og þekking í dýrahaldi til að auka velferð dýra enn frekar.
Flokksráðsfundurinn leggur áherslu á að kannaðir verði kostir þess að innleiða velferðarmerkingar á dýraafurðum eins og stefnt er að í Þýskalandi.”
Hver er afstaða þíns flokks til villikatta og tilverurétt þeirra?
Afstaða VG er sú að villikettir og önnur dýr eiga tilverurétt.
Myndi þinn flokkur styðja frumvarp til breytingaá lögum um velferð dýra, sem tryggir tilverurétt villikatta og festir í lögheimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR-aðferðafræði?
Já.
Við erum þá búin að fá svör frá átta stjórnmálaflokkum varðandi málefni villikatta og um dýravelferð: Viðreisn, Pírötum, Lýðræðisflokknum, Miðflokknum, Ábyrgri framtíð, Samfylkingunni og Vinstri grænum. Við erum einnig komin með svör frá Sjálfstæðisflokknum sem kemur á vefinn okkar á næstu dögum. Við bíðum enn eftir svörum frá Flokki fólksins, Sósíalistum og Framsóknarflokknum.
Spennan magnast núna í aðdraganda kosninga og við vonum að þessi svör gefi ykkur örlítið betri hugmynd hvað skal kjósa 30. nóvember næstkomandi.