Þá er komið að næsta stjórnmálaflokki til að svara spurningum okkar sem varða málefni sem brenna á okkar félagi, en dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.
Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.
Áttundi stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar er Sjálfstæðisflokkurinn.
Er flokkurinn með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum?
Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á dýravelferð sem hluta af sinni stefnu. Flokkurinn telur mikilvægt að í hvívetna sé farið að lögum og reglum, þ.m.t. lögum um dýravelferð.
Hver er afstaða þíns flokks til villikatta og tilverurétt þeirra?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki ályktað sérstaklega um villiketti í sinni stefnu en áhersla flokksins er almennt á samráð við samfélagið og jafnvægi milli mannúðarsjónarmiða og raunhæfra aðgerða í umhverfis- og velferðarmálum.
Myndi þinn flokkur styðja frumvarp til breytingaá lögum um velferð dýra, sem tryggir tilverurétt villikatta og festir í lögheimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR-aðferðafræði?
Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki mótað sértæka stefnu um tilverurétt villikatta eða TNR-aðferðafræðina í stefnu sinni. Hins vegar byggir stefna flokksins almennt á virðingu fyrir fjölbreytni í náttúruvernd og áherslu á samráð við samfélagið í umhverfismálum. Því yrði Sjálfstæðisflokkurinn líklega fylgjandi slíku frumvarpi ef það fellur að þeim áherslum, þar sem mannúð og hagnýtar lausnir væru í forgrunni.
Við erum þá búin að fá svör frá átta stjórnmálaflokkum varðandi málefni villikatta og um dýravelferð: Viðreisn, Pírötum, Lýðræðisflokknum, Miðflokknum, Ábyrgri framtíð, Samfylkingunni, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum. Við bíðum enn eftir svörum frá Flokki fólksins, Sósíalistum og Framsóknarflokknum.
Spennan magnast núna í aðdraganda kosninga og við vonum að þessi svör gefi ykkur örlítið betri hugmynd hvað skal kjósa 30. nóvember næstkomandi.