Við höldum áfram að krefja stjórnmálaflokka um svör við málefnum sem brenna á okkar félagi, en dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.
Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.
Sjötti stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar er Samfylkingin.
Er flokkurinn með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum?
Þegar Samfylkingin og Vinstrigræn voru saman í ríkisstjórn árið 2013 voru ný lög um velferð dýra afgreidd á Alþingi. Þau mörkuðu tímamót í dýravernd á Íslandi. En síðan er liðinn rúmur áratugur og löngu kominn tími á endurskoðun laganna. Samfylkingin vill að mótuð verði markviss stefna um dýravelferð á Íslandi og skerpt á eftirliti með aðbúnaði og meðferð dýra. Við viljum gæta að réttindum dýra og veita umráðamönnum þeirra ráðgjöf og fræðslu um dýravelferð og þær lögbundnu skyldur sem fylgja dýrahaldi. Vernda þarf heimkynni villtra dýra þannig að líffræðilegum fjölbreytileika sé ekki ógnað og meta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi íslenskrar náttúru.
Hver er afstaða þíns flokks til villikatta og tilverurétt þeirra?
Samfylkingin hefur ekki mótað sér afstöðu eða ályktað um villiketti og tilverurétt þeirra en er almennt fygjandi aukinni dýravelferð og auknum réttindum dýra.
Myndi þinn flokkur styðja frumvarp til breytingaá lögum um velferð dýra, sem tryggir tilverurétt villikatta og festir í lögheimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR-aðferðafræði?
Samfylkingin telur tímabært að endurskoða dýraverndunarlögin er opin fyrir öllum breytingum sem tryggja aukna dýravelferð og réttindi dýra.
Við erum þá búin að fá svör frá sex stjórnmálaflokkum varðandi málefni villikatta og um dýravelferð: Viðreisn, Pírötum, Lýðræðisflokknum, Miðflokknum, Ábyrgri framtíð og Samfylkingunni. Við erum einnig komin með svör frá Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum og munu þau svör tikka inn á vefinn okkar á næstu dögum. Við bíðum enn eftir svörum frá Flokki fólksins, Sósíalistum og Framsóknarflokknum.
Spennan magnast núna í aðdraganda kosninga og við vonum að þessi svör gefi ykkur örlítið betri hugmynd hvað skal kjósa 30. nóvember næstkomandi.