fbpx

Villikettir spyrja: Ábyrga framtíð

Við höldum áfram að krefja stjórnmálaflokka um svör við málefnum sem brenna á okkar félagi, en dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.

Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.

Fimmti stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar er Ábyrg framtíð.


Er flokkurinn með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum?

Réttur fólks til að eiga gæludýr á að vera virtur og ekki bannaður af bæjarfélagi. Dýravelferð þarf að vera vernduð og dýraníðsatvik þurfa alltaf að vera tekin alvarlega af yfirvöldum. Endurskoða má lög um innflutning og ferðalög með gæludýr, til að draga úr álagi á íslenska gæludýraeigendur, t.d. vegna blindrahunda.

Hver er afstaða þíns flokks til villikatta og tilverurétt þeirra?

Ábyrg framtíð styður af heilum hug tilverurétt allra dýra, þ.m.t. villikatta.  Við gætum t.d. stutt við aukin framlög til allra dýra-velferðarsamtaka, með að slík framlög yrðu frádráttarbær tekjuskattsstofni.  

Myndi þinn flokkur styðja frumvarp til breytingaá lögum um velferð dýra, sem tryggir tilverurétt villikatta og festir í lögheimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR-aðferðafræði?

Við styðjum TNR aðferðarfræðina og myndum styðja við að þau yrðu lögleidd.


Við erum þá búin að fá svör frá fimm stjórnmálaflokkum varðandi málefni villikatta og um dýravelferð: Viðreisn, Pírötum, Lýðræðisflokknum, Miðflokknum og Ábyrgri framtíð. Við erum einnig komin með svör frá Samfylkingunni, Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokknum og munu þau svör tikka inn á vefinn okkar á næstu dögum. Við bíðum enn eftir svörum frá Flokki fólksins, Sósíalistum og Framsóknarflokknum.

Spennan magnast núna í aðdraganda kosninga og við vonum að þessi svör gefi ykkur örlítið betri hugmynd hvað skal kjósa 30. nóvember næstkomandi.