fbpx

Villikettir spyrja: Miðflokkinn

Við höldum áfram að krefja stjórnmálaflokka um svör við málefnum sem brenna á okkar félagi, en dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.

Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.

Næsti stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar eru Miðflokkurinn, en sá flokkur sendi ekki beint svör við spurningunum okkar heldur sendu eftirfarandi svar:

Miðflokkurinn styður að sjálfsögðu velferð dýra og er alltaf til umræðu um að bæta hana. Löggjöf okkar á Íslandi dregur dám af því sem tíðkast í nágrannalöndunum en þarf auðvitað alltaf að vera til endurskoðunar í ljósi nýrra upplýsinga og aukinnar þekkingar.

Hvað varðar villiketti sérstaklega þá hefur flokkurinn sem slíkur enga stefnu þegar kemur að málefnum þeirra. Innan Miðflokksins eru hins vegar miklir dýravinir sem hefði án efa áhrif á málefnalega afstöðu þeirra, komi málefni villikatta sérstaklega til umræðu á hinum pólitíska vettvangi.

Miðflokkurinn svarar hvorki hvort flokkurinn sé með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum, né hvort flokkurinn myndi styðja frumvarp um breytingar á dýraverndunarlögum, sem myndu tryggja tilverurétt villikatta og festa í lög heimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR aðferðerðarfræði (trap – neuter – return).

Við erum þá búin að fá svör frá fjórum stjórnmálaflokkum varðandi málefni villikatta og um dýravelferð: Viðreisn, Pírötum, Lýðræðisflokknum og Miðflokknum. Við bíðum enn svara frá Samfylkingunni, Vinstri grænum, Sósíalistaflokknum, Ábyrgri framtíð, Flokki fólksins, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum.