Það hefur varla farið framhjá neinum að kosningar eru í vændum og því ákváðum við að senda nokkrar spurningar á þá stjórnmálaflokka sem eru í framboði þetta árið. Dýravernd og málefni villikatta er okkur afskaplega mikilvægt og við teljum þeirra svör geta haft áhrif á ákvarðanatöku okkar velunnara þegar komið er í kjörklefann.
Við sendum upphaflega 4 spurningar tengdar dýravelferð og málefnum Villikatta en vorum beðin um að fækka og einfalda spurningarnar okkar. Við sendum því aftur 3 spurningar á alla flokka.
Fyrsti stjórnmálaflokkurinn til að svara spurningum okkar er Viðreisn og við þökkum þeim kærlega fyrir að gefa sér tíma til að svara.
Er flokkurinn með mótaða stefnu í dýravelferðarmálum?
Viðreisn hefur ekki mótað sérstaka stefnu í þessum málaflokki. Við teljum að huga þurfi að almennt að velferð dýra og í samræmi við lög og reglur. Viðreisn í Reykjavík hefur t.d. mótað sér þá stefnu að borgin eigi að vera dýravæn borg, þar sem hugað er sérstaklega að því hvar heimilisdýr verða fyrir umferðarslysum, með það fyrir augum að skoða sérstaklega hönnun á umferðarmannvirkjum.
Hver er afstaða þíns flokks til villikatta og tilverurétt þeirra?
Viðreisn hefur ekki mótað neina sérstaka stefnu eða tekið formlega afstöðu til málefna villikatta. Um þá eiga að gilda sömu grundvallarreglur og um önnur dýr.
Myndi þinn flokkur styðja frumvarp til breytinga
á lögum um velferð dýra, sem tryggir tilverurétt villikatta og festir í lög
heimild til að beita hinni alþjóðlega viðurkenndu TNR-aðferðafræði?
TNR-aðferðafræðin (Trap-Neuter-Return) er notuð til að stjórna stofnum villikatta á mannúðlegan hátt. Hún fellur vel að gildum Viðreisnar og má vel skoða vandlega hvort heppilegt væri að lögfesta hana.
Við sendum allar þessar spurningar á alla flokka sem eru með staðfest framboð í alþingiskosningunum 2024. Við munum birta öll svör sem berast á næstu dögum og vikum.
Gleðilegar kosningar!