fbpx

Okkar innilegustu þakkir til kisusamfélagsins

Við erum alveg hreint orðlaus yfir viðbrögðunum við afmælinu okkar, 12. október síðastliðinn – en við ætlum þó að reyna að koma orðum að því. Hugmyndin um að halda sérstaklega upp á 10 ára starfsafmæli Villikatta kviknaði í vor og við byrjuðum á að fá Striga til að teikna sérstaka afmælisútgáfu af Villikattabolnum, sem er þriðji bolurinn sem hún hannar fyrir okkur. Okkur dreymdi um að halda viðburð, þar sem við gætum frætt almenning og okkar velunnara um starfið okkar og sýnt hvernig þeirra stuðningur hefur nýst í gegnum árin. Það var samt flókið, því ekki erum við með húsnæði til að taka á móti fólki.

Það var því himnasending þegar við hófum samstarf við Dýrheima, því þar var komið glæsilegt húsnæði og þaulvanir dýravinir í viðburðarhöldum. Þar með hófst mikill undirbúningur til að reyna að skapa sem mest fræðandi en einnig skemmtilega upplifun fyrir gesti og gangandi.

Þrátt fyrir mikinn spenning af okkar hálfu, þá var ómögulegt að segja til hvort fólk myndi koma. Við vonuðum það besta, en mætingin fór samt fram úr okkar björtustu vonum! Við erum ekki með tölu á fjöldanum sem kom, en áætlum að það hafi komið yfir 200 manns! Á staðnum vorum við einnig að selja bolina okkar og fólk gat styrkt okkur með frjálsum framlögum og við getum stolt sagt frá því að á rétt um 4 klukkutímum söfnuðust yfir 400.000 kr sem renna óskipt í sjúkrasjóð Villikatta!

Takk fyrir komuna. Takk fyrir áhugann, spjallið, stuðninginn og styrkina. Það var svo gott að finna samhuginn í fólki og við erum öll í sama liðinu að hugsa um hag kisanna okkar. Það sannaðist enn einu sinni hvað kisu- og dýraverndunarsamfélagið er magnað og fallegt!

Við viljum sérstaklega þakka Dýrheimum, fyrir að bjóða salinn sinn og kaffihús. Án þess hefði þessi viðburður aldrei orðið að veruleika. 

Við viljum þakka Arndísi Björgu og Olgu Perlu fyrir að kynna upphaf félagsins – og í raun fyrir allan þann grunn sem þær hafa lagt í félagið. Við stöndum jú á þeirra herðum.  Einnig viljum við þakka Theodóru, dýrahjúkrunarfræðingi Dýrheima og Hrund, dýralækni Gæludýraklíníkurinnar, fyrir ótrúlega áhugaverða og fræðandi fyrirlestra. 

Við viljum þakka Sætum Syndum fyrir glæsilega og gómsæta villikisuköku! Og við viljum þakka Kattavinafélagi Íslands, Dýraverndarsambandi Íslands og Pírötum fyrir að færa okkur fallegar kveðjur og gjafir – við áttum alls ekki von á neinu slíku!  

Og að lokum viljum við þakka öllum sjálfboðaliðunum sem stóðu vaktina og þeim sem standa vaktina alla daga ársins, til að tryggja að okkar kisur skorti ekkert. Það er alltaf jafn magnað að sjá samstöðuna og ástríðuna sem knýr okkur áfram í okkar starfi. Þið eruð frábær! 

Það hefur orðið mikil vitundarvakning á meðal almennings þegar það kemur að kattahaldi og stöðu villikatta síðan félagið var stofnað, en þrátt fyrir ótrúlegan vöxt félagsins síðustu 10 árin og þau mörgu þrekvirki sem hafa verið unnin, þá eru ennþá ótal verkefni sem þarf að ráðast í. Á meðan óábyrgir eigendur halda áfram að fjöldaframleiða kettlinga og koma þeim á heimili eins snemma og hægt er, þá munum við halda áfram að sjá sömu vandamálin aftur og aftur. Það eru kettir sem enda á vergangi því þeir hættu að vera litlir og krúttlegir. Kettlingar sem fæðast úti því fressar og læður voru ekki tekin úr sambandi og fóru á flakk. Stressaðar kisur sem þurfa ný heimili vegna pissuvandamála. Heimili sem fara úr böndunum og enda með 30+ kisur í hörmulegum aðstæðum.  

Mikilvægt er að breyta lögum um velferð dýra og efla eftirlit með dýrahaldi til að tryggja velferð þeirra. Við þurfum að binda svo um hnútana að öll dýr geti átt gott líf og að ábyrgð dýraeiganda sé skýr, því dýrin eru hér vegna okkar og á okkar ábyrgð. Mikilvægt er að fólk sem brýtur á dýrum sæti ábyrgð.

Já það er víst að litla félagið okkar hefur vaxið gríðarlega síðustu 10 árin – og við erum hvergi nærri hætt!

Takk fyrir stuðninginn og takk fyrir okkur!