Árið 2022 var svo sannarlega ekki minna annasamt en fyrri ár í starfi Villikatta. Um 220 kettlingar og yfir 380 fullorðnir kettir voru á einum eða öðrum tímapunkti í umsjá félagsins á landsvísu á árinu. Yfirleitt er ekki erfitt að finna framtíðarheimili fyrir kettlinga í okkar umsjá, en það hefur reynst okkur erfiðara að finna ný heimili fyrir fullorðnu kisurnar okkar. Sem er miður, því þessir yndislegu kettir sem enda hjá okkur hafa margir hverjir átt erfitt uppdráttar og eiga svo sannarlega skilið að eignast sinn griðastað á góðum heimilum.
Undanfarin misseri hefur starfsemi Villikatta tekið ákveðnum breytingum að því leyti að enn stærri hluti af þeim köttum sem koma til okkar eru svokallaðir vergangskettir. Þetta eru fyrrum heimiliskettir sem af einhverjum orsökum hafa farið á vergang, týnst eða hreinlega verið bornir út. Félagið er reglulega beðið um að koma og aðstoða við að ná inn köttum sem eru á þvælingi í kringum mannabústaði. Þegar þessir kettir eru teknir inn er byrjað á að athuga hvort þeir séu örmerktir svo hægt sé að hafa samband við eiganda. En ef örmerki finnst ekki og engir eigendur gefa sig fram þegar kisur eru auglýstar þá þarf að finna þeim ný heimili. Þessi gríðarlega aukning vergangskatta síðustu ár sýnir hversu mikilvægt það er að örmerkja alla heimilisketti, svo þeir komist hratt og örugglega heim til sín þegar þeir finnast.
Nokkuð hefur verið um að slasaðir eða veikir kettir koma í okkar umsjá og hefur sjúkrasjóður félagsins fundið töluvert fyrir því. Dýralæknakostnaður er risastór útgjaldaliður í rekstri félagsins, þegar um er að ræða um 600 ketti og kettlinga á landsvísu yfir árið. Félagið starfar eftir „no-kill“ viðmiðum og því gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að aðstoða og bjarga kisum í neyð. Því miður náum við þó ekki alltaf að grípa nógu snemma inn í hjá veikum villi- og vergangsköttum og því þurfum við stundum að leyfa kisu að fara til hinstu hvílu, og þá einungis ef það liggur fyrir í samráði við dýralækni að enginn möguleiki er á neinum lífsgæðum fyrir köttinn.
Með árunum bætist við reynsla og þekking í starfið og nú er það svo að villtir kettir sem áður hefðu verið eyrnamerktir og sleppt aftur eru í auknum mæli teknir inn og reynt að manna. Það getur tekið tíma en tími og þolinmæði er einmitt það sem þessir kettir þurfa. Í kjölfar þessa breytinga í starfsháttum höfum við tekið inn eyrnamerkta ketti og þeim hefur verið gefinn möguleiki á að gerast heimilisköttur. Þó þessir kettir eru mjög varir um sig lengi vel þá sjáum við oftar en ekki að þeir eru því fegnir að komast inn í hlýjuna.
Störf félagsins eru margvísleg og öll eru þau unnin í sjálfboðavinnu. Því treystir félagið á hóp sjálfboðaliða sem fúsir gefa köttunum af sínum tíma og sinna þeim af alúð og næmni. Það er ekki sjálfgefið og þeim er seint fullþakkað fyrir að gefa köttum, sem sumir hafa litla umhyggju fengið um ævina, sinn frítíma. Kettirnir launa starfið ríkulega þegar árangur næst, en það er fátt sem gleður hjarta sjálfboðaliðans meira en fyrsta klappið eða fyrsta malið frá ketti sem kom hræddur og velktur inn. Ekki má heldur gleyma samstarfsaðilum okkar, kæru dýralæknastofunum sem finna alltaf tíma fyrir okkar skjólstæðinga og sinna þeim af alúð og fagmennsku.
Villikettir gætu ekki haldið út þessu kröftuga starfi án allra kisuvinanna sem styrkja félagið reglulega á einn eða annan hátt – góðvild ykkar er ómetanleg. Hægt er að gerast félagi Villikatta og greiða árgjald, en nú er einnig hægt að greiða frjáls framlög í vefverslun félagsins, þar sem um er að ræða eingreiðslu. Svo ekki sé minnst á allan þann varning sem hægt er að versla í vefversluninni. Einnig er hægt að styrkja sjúkrasjóð Villikatta á landsvísu beint með millifærslu inn á kt. 710314-1790, reikn. 0111-26-73030, en sjúkrasjóðurinn greiðir fyrir allt frá bólusetningum að lífsnauðsynlegum aðgerðum fyrir skjólstæðinga okkar um allt land.