Árið 2016 var mjög annasamt og viðburðaríkt hjá félaginu VILLIKETTIR. Á milli 300-400 kettlingum og eldri kisum var fundið nýtt heimili í gegnum okkur. Stór hluti af þessum kisum eða 75, voru kisur sem við björguðum úr afleitum aðstæðum af heimili þar sem bjuggu 100 kettir og 6 hundar. Aðkoma okkar að þessu stóra 100 katta máli tók mikinn hluta af tíma, orku og fjármunum félagsins og enn erum við tengd þessu máli með nokkrar kisur á okkar vegum og 25 kisur sem eftir eru á heimilinu en við tókum að okkur að láta gelda svo fjölgunin stoppaði.
Þegar svona stór mál koma upp þá finnum við svo vel hvað okkur vantar húsnæði – afdrep til að taka við svona miklum fjölda katta þegar neyðaraðstæður koma upp. Það er stóri draumurinn okkar fyrir næstu ár að eignast okkar eigið húsnæði eða afdrep til að geta komið fleiri kisum til hjálpar.
Við þurftum að kæra nokkur mál til MAST á árinu 2016 sem vörðuðu illa meðferð á kisum, við lærðum á því að úrræði til hjálpar dýrum í þessum aðstæðum voru af mjög skornum skammti hjá MAST og í raun aðeins fá sjálfboðaliðasamtök sem geta brugðist við til bjargar kisum sem búa við slæmar aðstæður og þá eru þessi samtök alveg á eigin vegum hvað varðar fjármagn og húsnæði. Við vonum að á næstu árum verði einhverjar breytingar á dýravernd á Íslandi og betur verði hugað að velferð þeirra og einhver úrræði í boði önnur en aflífun dýranna. Eftirlit þarf líka að auka og viðurlög við illri meðferð á dýrum.
Við höfum haldið áfram að TNR’a villikisurnar (Fanga-Gelda-Skila) til að reyna að bæta lífsgæði þeirra og stemma stigum við fjölgun dýranna. Við gefum villikisum á fjölmörgum stöðum á landinu og erum stöðugt að fá til liðs við okkur nýtt fólk víðsvegar um landið sem vill taka þátt í starfi VILLIKATTA.
Á árinu leituðum við til stærstu sveitarfélaga landsins til að gera við okkur samstarfssamning um velferð og umsjón villikatta, við fengum jákvæð viðbrögð víða og Hafnarfjarðarbær ákvað fyrstur af þessum sveitarfélögum að gera við okkur tilraunasamning til 1 árs. Við munum halda áfram að vinna með sveitarfélögunum að málefnum villikatta til að bæta velferð þeirra og aðbúnað.
Við höfum fengið fjölmarga sjálfboðaliða í hópinn á þessu ári, mikið af frábæru fólki sem hefur lagt fram tíma sinn til að gera líf villikatta betra á Íslandi. Við erum innilega þakklát fyrir góðvild fólks í garð villikatta, án ykkar þá væri þetta ekki mögulegt
Og ekki má gleyma öllum dýralæknunum sem hafa lagt okkur lið, gefið vinnu sína og tíma til að bæta líf kattanna – þeir hafa verið okkur ómissandi á árinu og bjargað mörgum kisulífum. TakkDýralæknamiðstöðin Grafarholti, Dýralæknastofa Reykjavíkur, Dýraspítalinn Í Víðidal Ehf,Dýralæknastofa Suðurnesja og Dýraspítalinn Garðabæ.
Og svo eru það þið kæru dýravinir þið hafið lagt okkur lið á svo marga vegu, með fjárstyrkjum, matargjöfum, teppum og öðru dóti sem hefur nýst kisunum, fallegum orðum og hvatningu til að halda áfram. Við erum ykkur endalaust þakklát, takk fyrir stuðninginn
Gleðilegt ár kæru vinir, við hjá VILLIKÖTTUM munum halda áfram á næsta ári að vinna að bættum hagsmunum villikatta á Íslandi. Við vonum að þið verðið með okkur á þeirri leið og takið þátt í að búa vegalausum kisum betra líf